Fjármálafyrirtæki og fjölmiðlar segja upp fólki

Það verða færri sem verða á mæta til vinnu við Wall Street í haust. Mynd: Aditya Vyas / Unsplash

Bandarískir bankastjórar hafa að undanförnu þurft að grípa til sparnaðaraðgerða þar sem gangurinn í efnhagslífinu er mun hægari en áður. Færri eru að kaupa og selja fyrirtæki. „Atvinnumarkaðurinn hefur líklega ekki verið svona erfiður síðan í fjármálakreppunni árið 2008,“ hefur Financial Times eftir framkvæmdastjóra ráðningafyrirtækis í fjármálageiranum.

Niðurskurðurinn hjá stærstu fyrirtækjunum á Wall Street telur brátt 11 þúsund manns samkvæmt frétt Financial Times.

Citigroup er stórtækast í þeim hópi því þar munu 5 þúsund starfsmenn fá uppsagnarbréf fyrir mánaðamótin, flestir á fjárfestingbankasviðinu. Goldman Sachs og Morgan Stanley hafa einnig gripið til eða boðað hópuppsagnir.

Það eru ennþá fleiri sem misst hafa vinnuna í fjölmiðlageiranum vestanhafs í ár eða um 17 þúsund manns samkvæmt frétt Axios. Þetta er stærri hópur en fékk uppsagnarbréf í byrjun heimsfaraldursins. Tekjur fjölmiðla af áskriftum og auglýsingum eru að dragast saman og hækkandi vextir eru þung byrði fyrir skuldsettustu fyrirtækin.

Auglýsendur leita sífellt oftar til tæknifyrirtækja en hefðbundinna fjölmiðla. Ný samantekt M Group, eins stærsta birtingafyrirtækis í heimi, sýnir að 25 fyrirtæki sitja á um 75 prósent af auglýsingamarkaðnum og af þessum 25 fyrirtækjum eru 17 tæknifyrirtæki. Fremst í þeim flokki eru Google og Meta, móðurfélag Facebook og Instagram.