Á árunum fyrir heimsfaraldur stóðu erlendir ferðamenn undir langstærstum hluta viðskiptanna við íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Árin 2017 og 2018 var erlenda veltaN hátt í þrefalt meiri en sú innlenda en þetta breyttist snögglega þegar sóttvarnaraðgerðir vegna Covid-19 urðu almennar. Árið 2020 eyddu því Íslendingar til að mynda meiru hjá ferðaþjónustufyrirtækjum landsins en útlendingarnir.
Í fyrra voru landamæri galopin á ný og Íslendingar fjölmenntu til útlanda og hingað komu álíka margir túristar og árið 2016 eða um 1,7 milljónir. Neysla þeirra var hins vegar á pari við metárið 2018 þegar ferðamannahópurinn var talsvert fjölmennari.
Til viðbótar voru útgjöld Íslendinga hjá ferðaþjónustufyrirtækjum miklu meiri en þau hafa áður verið eins og sjá má á nýrri samantekt Hagstofunnar.