Stjórnendur norrænu efnisveitunnar Viaplay sendu í nótt frá sér kauphallartilkynningu þar sem tilkynnt var um brottrekstur forstjórans og eins voru afkomuspár afturkallaðar, bæði til skemmri og lengri tíma. Gengi hlutabréfa í Viaplay hefur fallið um sextíu prósent í kauphöllinni í Stokkhólmi í dag.
Skýringin á versnandi horfum í rekstri Viaplay skrifast á fækkun áskrifenda sem rakin er til hækkunar áskriftarverðs og þeirrar staðreyndar að framfærslukostnaður neytenda hefur hækkað á þeim mörkuðum sem Viaplay starfar á.
Hér á landi er Viaplay með sýningarétt á Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu og öllum leikjum íslenska karlalandsliðsins í fótbolta til ársloka 2028.