Hlutafjárútboðinu seinkað

MYND: SAS

Frestur til að skila tilboðum í stóran hlut í skandinavíska flugfélaginu SAS átti að renna út eftir tíu daga eða þann 26. júní. Nú hefur fresturinn hins vegar verið færður aftur um þrjár vikur því félagið þarf lengri tíma til að ganga frá sínum málum fyrir bandarískum skiptarétti. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá flugfélaginu.

SAS hefur notið gjaldþrotaverndar hjá bandarískum dómsstólum frá því síðasta sumar og ætlunin var að ljúka hinu svokallað Chapter-11 ferli á næstu vikum. Í kjölfarið var stefnt að hlutafjárútboði þar sem stórir fjárfestar eiga kost á því að kaupa stóran hlut í þessu stærsta flugfélagi Norðurlanda.

Fresturinn sem fjárfestar hafa hefur nú verið framlengdur til 17. júlí og það verður þá fyrst í september sem fyrir liggur hvernig eignarhaldið á SAS verður. Það er þó ljóst að danska ríkið ætlar sér stóran hlut en eins hefur bandaríski sjóðurinn Apollo Management verið sterklega orðaður við SAS.

Það hefur komið fram að hlutafjáraukningin á að skila SAS 9,5 milljarði sænskra króna (123 milljarðar kr.) og nærri allt annað hlutafé verður þurrkað út. Greinendur norska bankans DNB hafa bent á að þessi verðmiði á SAS sé hár í samanburði við markaðsvirði Norwegian en það er rétt um 150 milljarðar króna í dag. Samt gengur rekstur Norwegian mun betur og eins skuldar það félag lítið. Alla vega í samanburði við helsta keppinautinn.

Þess má geta að samkvæmt nýju verðmati IFS Greiningar þá ætti markaðsvirði Icelandair að vera miklu hærra eða 276 milljarðar kr. Sú upphæð jafngildir markaðsvirði samanlögðu markaðsvirði Norwegian og Finnair í dag.