Icelandair til Færeyja og flugfélag heimamanna til Bandaríkjanna

Frá Þórshöfn í Færeyjum. MYND: ICELANDAIR

Icelandair ætlar að hefja flug til Færeyja þann 1. maí á næsta ári og verður ferðunum haldið úti fimm til sex sinnum í viku út október. Flogið verður til Færeyja að morgni dags frá Keflavíkurflugvelli og farþegar geta því tengt ferðirnar við flug Icelandair til og frá Bandaríkjunum.

Þjóðarflugfélag Færeyja, Atlantic Airways, er einmitt að stíga sín fyrstu skref vestanhafs því nú í lok sumars fer félagið jómfrúarferð sína til Stewart flugvallar við New York en þar hefur Play verið eina evrópska flugfélagið.

Í tengslum við Færeyjaflug Icelandair þá hefur félagið undirritað viljayfirlýsingu um samstarf við Atlantic Airways um að bjóða viðskiptavinum félaganna tveggja tengingar á milli Færeyja og áfangastaða Icelandair í Evrópu og Norður-Ameríku. 

„Það er mjög ánægjulegt að kynna flug til Færeyja. Færeyjar eru vaxandi áfangastaður og við finnum fyrir miklum áhuga á flugi þangað hjá viðskiptavinum okkar um allan heim. Tengsl Færeyinga og Íslendinga hafa alltaf verið mikil og okkar von er sú að með aukinni ferðatíðni muni þau tengsl og samvinna styrkjast enn frekar. Í þeim anda munum við nú hefja vinnu við að efla samstarf okkar við Atlantic Airways. Við höfum í gegnum árin átt í góðu samstarfi við félagið en sjáum mikil tækifæri í að efla það enn frekar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Þar er jafnframt haft eftir Jóhönnu á Bergi, forstjóra Atlantic Airways, að flugfélögin tvö hafi átt í góðu samstarfi um áratugaskeið.

„Bandarískir ferðamenn eru vaxandi hópur og mikilvægur fyrir færeyska ferðaþjónustu og þessi viljayfirlýsing greiðir leiðina að því að tengjast betur Íslandi og öflugu leiðakerfi Icelandair til Bandaríkjanna og Evrópu.“