Íslenskum Kúbuförum meinuð landganga í Bandaríkjunum

„Nokkrir Íslendingar hafa leitað til borgaraþjónustunnar upp á síðkastið vegna þess að þeir fá ekki inngöngu í Bandaríkin," segir í frétt Utanríkisráðuneytisins, sem vekur athygli á því að frá því Bandaríkin settu Kúbu á lista yfir lönd hliðholl hryðjuverkum missir hver sá sem ferðast til Kúbu réttinn til undanþágu frá vegabréfsáritunarskyldu.

Götumynd frá Havana MYND: Spencer Everett/Unsplash

Töluvert margir Íslendingar hafa ferðast til Kúbu á síðustu árum og eru ferðir þangað auglýstar í fjölmiðlum hér. Ekki hefur hinsvegar verið varað við þeim hliðarverkunum að í framhaldi af Kúbuferð þurfi að hafa meira fyrir því að komast til Bandaríkjanna. Nú hafa nokkrir Íslendingar leitað til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins íslenska vegna þess að þeir fá ekki inngöngu í Bandaríkin, þrátt fyrir að hafa talið sig hafa gilt ESTA.

„Ástæðan er sú að þeir hafa ferðast til Kúbu,“ segir í frétt utanríkisráðuneytisins, sem vekur athygli á því að frá því Bandaríkin settu Kúbu á lista yfir lönd hliðholl hryðjuverkum, 12. janúar 2021, þá „missir hver sá sem ferðast til Kúbu réttinn til undanþágu frá vegabréfsáritunarskyldu til Bandaríkjanna (visa waiver). Þau sem hafa ferðast til Kúbu þurfa því að sækja um vegabréfsáritun hjá sendiráði Bandaríkjanna ef þau vilja ferðast til Bandaríkjanna, hvort sem þau hafa gilt ESTA eða ekki.“

Þessi afstaða Bandaríkjastjórnar þýðir m.ö.o. ekki að Kúbufari fái ekki landgöngu í Bandaríkjunum. heldur þarf viðkomandi að fá vegabréfsáritun, sem aðrir íslenskir borgarar þurfa að jafnaði ekki.