Kuldaboli í Reykjavík

Erlendir ferðamenn sem voru á ferli í Reykjavík þennan svala mánudag í júní virtust flestir við öllu búnir, úlpuklæddir með húfur. Kuldapollurinn við Ísland virðist ekki á förum alveg strax.

„Hvernig kemst maður héðan?" MYND: ÓJ

TÚRISTI fór í vinnuferð í miðborg Reykjavíkur og á vegi hans urðu fjölmargir erlendir ferðamenn eins og venjulega – að skoða sig um og fræðast um höfuðborg lýðveldisins. Flestir virtust hafa munað eftir að taka með sér skjólfatnað að heiman.

MYNDIR: ÓJ

Afgreiðslustúlka í verslun 66°Norður upplýsti TÚRISTA þó að töluvert væri um að ferðamenn kæmu inn fyrir og keyptu skjólgott höfuðfat eða annan útifatnað. Spáin er ekkert sérstök fyrir höfuðborgarsvæðið:

MYND: Veðurstofa Íslands

TÚRISTI settist inn á kaffihús. Billie Holiday söng Autumn in New York og þótti einhverjum kannski við hæfi þó nú væri júníbyrjun.

Líklega eiga erlendir ferðamenn alveg eins von á að kuldinn bíti í Íslandsferðinni – og klæða sig eftir því. Heimamenn sjálfir fara eiginlega hjá sér, hálfskammast sín fyrir að veðrið sé svona hráslagalegt.

En svo er hægt að skella sér austur á land. Þar skín sólin víst stundum.

Látum myndirnar segja söguna um þennan júnídag í Reykjavík.

MYNDIR: ÓJ