Kuldaleg samskipti draga úr flugtíðni

Díplómatískur vilji er til þess að efla kynni almennings í Bandaríkjunum og Kina með fleiri flugferðum milli landanna. Þeim hefur fækkað mjög frá því fyrir heimsfaraldurinn og kuldaleg samskipti ríkjanna hafa dregið úr ferðavilja.

Á flugvellinum í Beijing MYND: Zgang Kaiyv/Unsplash

Fyrir heimsfaraldurinn voru farnar um 350 flugferðir á milli Bandaríkjanna og Kína í hverri viku.  Svo botnfraus allt. Miklar ferðatakmarkanir voru settar á milli landanna. Nú eru ferðirnar aðeins 24 á viku. 

Vilji er til þess hjá ráðamönnum Bandaríkjanna og Kína að auka ferðatíðni að nýju og auka möguleika fólks í þeim báðum löndum á gagnkvæmum kynnum. Reuters-fréttastofan hefur þetta eftir Daniel Kritenbrink, háttsettum sendifulltrúa Bandaríkjanna í Suðaustur-Asíu, en hann ræddi stöðuna í samskiptum við Kína á málstofu sem öryggismálastofnun í Washington stóð fyrir í vikunni. 

Fundir Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með kínverskum ráðamönnum voru ekki taldir hafa skilað neinum markverðum árangri. En Kritenbrink staðfesti að þar hefði þó náðst samkomulag um að reyna að auka óformleg samskipti að nýju. Hann sagðist vonast til að meira jafnvægi yrði í fjölda námsmanna í löndunum tveimur. Nú væru 300 þúsund kínverskir námsmenn í Bandaríkjunum en aðeins 350 bandarískir í Kína.