Samfélagsmiðlar

„Metnaðarfull áform um vöxt“

Eftir breytingar í eigendahópi á Arctic Adventures ekki lengur hlut í ferðaþjónustufyrirtækjum í Alaska. Nýi forstjórinn, Ásgeir Baldurs, segir að helsta verkefnið nú sé að tryggja stöðugleika í rekstrinum. Fyrst um sinn einbeiti félagið sér að starfseminni hér heima - en stefnt sé að því að stækka félagið og hugsanlega setja á markað.

Jökull kannaður að innan

„Þetta er spennandi. Ferðaþjónustan er mjög vaxandi grein og áhugaverð, skiptir stöðugt meira máli í lífi fólks. Það er gaman að vera kominn á vettvang þar sem fólk hefur áhuga á því sem er verið að selja. Maður hefur ekki alltaf orðið var við það í fyrri störfum. Það eru líka forréttindi að kynna fyrir útlendingum það sem landið hefur að bjóða. Stundum getur verið óaðgengilegt að njóta þess besta á Íslandi. Fólk fær mest út úr ferðinni ef það notfærir sér þjónustu fyrirtækis eins og okkar,“ 

segir Ásgeir Baldurs, nýr forstjóri Arctic Adventures. Hann býr að víðtækri reynslu úr viðskiptalífinu, var forstjóri VÍS, fjárfestingastjóri TM og forstöðumaður og ráðgjafi hjá Kviku. 

Nýr forstjóri Arctic Adventures, Ásgeir Baldurs – MYND: ÁB

„Ferðaþjónustan hefur mikil áhrif á samfélagið og vegur þungt í efnahag landsins. Fólk hefur sterkar skoðanir á greininni og miklar tilfinningar blandast í umræðu um hana. Það er skiljanlegt. Ferðaþjónusta snertir víða við lífi fólks. Áhrifin eru að mestu mjög jákvæð. Það er skemmtilegt og verðugt verkefni fyrir okkur hjá Arctic Adventures að hjálpa til við að búa til vel skipulagt og öruggt aðgengi að feðamannastöðum landsins – helstu perlum Íslands. Við viljum bjóða fólki að ferðast á betri hátt en það myndi gera á eigin vegum.“

Gengið á jökul – MYND: Arctic Adventures

Hver eru helstu verkefni Arctic Adventures núna?

„Stærsta verkefnið er að tryggja stöðugleika í rekstrinum eftir mikinn vöxt sem verið hefur frá lokum Covid-19. Við þurfum að viðhalda starfseminni og bæta hana, byggja upp innviði til að hægt verði að taka á móti fyrirsjáanlegum vaxandi fjölda ferðamanna sem hingað kemur á næstunni. Síðan þurfum við stöðugt að auka gæðin, bæta allt sem við erum að gera.

Eins gott að vita hvað maður á að gera – MYND: Arctic Adventures

Margt gott starfsfólk vinnur hjá okkur, leiðsögumenn og annað fólk. Hinsvegar er ljóst að þessi hraði vöxtur sem varð eftir heimsfaraldurinn reyndi á innviði Arctic Adventures eins og hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Það var erfitt að ná í tól og tæki, ráða þurfti mannskap á stuttum tíma. Það hefur gengið vel en ná verður meiri stöðugleika eftir hraðan vöxt á síðasta ári – og byggja síðan ofan á.“

Eruð þið sátt við það hvernig álagið dreifist yfir árið?

„Auðvitað viljum við alltaf hafa það jafnara. Eftir heimsfaraldurinn tók bókunartíminn að styttast. Minni fyrirsjáanleiki varð í starfseminni. Ég trúi því að þetta eigi eitthvað eftir að jafnast þó að ekki stefni í sama horf og fyrir faraldurinn. Veruleikinn er orðinn sá að fólk bókar með styttri fyrirvara en áður. Það reynir meira á ferðaþjónustufyrirtækin í áætlanagerð. Þetta á eftir að ganga aðeins til baka. Eftir faraldurinn gat fólk allt í einu ferðast að nýju og bókaði með mjög stuttum fyrirvara. Sá fyrirvari á kannski eftir að lengjast aðeins – en almennt stefnir í þessa átt: að bókað er með styttri fyrirvara en áður fyrr.“

Upplifun á fjöllum – MYND: Arctic Adventures

Og þið verðið að laga ykkur að þessum veruleika?

„Já, það er verkefnið. Hraðinn í heiminum hefur aukist og við sem fyrirtæki verðum að laga okkur að því.“

Er þá líka algengara en áður að fólk afpanti ferðir?

„Það hefur alltaf tíðkast. Nú er þetta allavega þannig að ferðaþjónustufyrirtækin loka ekki á bókanir fyrr en rétt fyrir brottför – til að halda áfram sölu eins lengi og hægt er. Það er hluti af skipulagsvinnunni að takast á við þetta.“

Leiðin inn í Langjökul – MYND: Arctic Adventures

Að stærstum hluta hefur Arctic Adventures verið með starfsemi á sunnanverðu landinu og á hálendinu. Er það að breytast?

„Við vorum að festa kaup á Hótel Hellissandi og opnum það núna í júní. Markmiðið er að geta boðið gistingu í okkar ferðum um landið. Svo höfum við keypt allt hlutafé í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal, þar sem gisting er í boði. Þetta er hluti af aukinni áherslu okkar á gistiþjónustu þó að við höfum engin áform um stórfelld umsvif í hótelgeiranum. Fyrir rekum við hótel á Geirlandi og í Hofi. Nú bætist Hellissandur við hjá okkur. Stefna okkar er að horfa til alls landsins sem okkar starfssvæðis. Við einblínum ekki á þetta en erum tilbúin að grípa tækifæri sem gefast til að veita ferðafólki þjónustu. Það eru góðar fréttir að EasyJet ætli að fljúga frá Bretlandi til Akureyrar næsta vetur. Vonandi náum við dreifingu um allt land – líka yfir vetrartímann. Við höfum trú á því að það sé frábær söluvara að bjóða Ísland allt sem áfangastað árið um kring.“

Sameiginlegt félag Arctic Adventures og bandaríska fjárfestingafélagsins Pt Capital keypti á síðasta ári ferðaþjónustufyrirtækin All Alaska Tours og Alaska Private Touring og uppi voru áform um umsvif í Alaska og byggja á reynslu frá Íslandi. Nú hafið þið hinsvegar dregið ykkur út úr þessu. Hvers vegna?

„Þetta tengist breytingum á eignarhaldi Arctic Adventures. Þessu fylgdi að við seldum frá okkur hlutinn sem við áttum í rekstrinum í Alaska. Að svo stöddu ætlum við að einbeita okkur að Íslandi.“

Það eru engin áform um landvinninga?

„Nú höldum við okkur við Ísland en útilokum ekkert að grípa tækifæri annars staðar.“

Raufarhólshellir – MYND: Arctic Adventures

Sjáið þið fyrir ykkur að afþreyingarhluti starfseminnar eigi eftir að vaxa?

„Við erum að móta stefnu til framtíðar. Nú seljum við ferðir og flytjum fólk um landið en viljum um leið geta boðið afþreyingu og upplifun. Við rekum áfangastaðinn Into the Glacier og eigum 80 prósent í Raufarhólshelli, bjóðum upp á köfun í Silfru, íshellaferðir, jöklagöngur og gönguferðir á hálendinu. Til viðbótar eru það svo dagsferðir eða lengri ferðir um suðurströndina, Snæfellsnes, Vestmannaeyjar eða allan hringinn – ásamt hótelunum sem við starfrækjum. Þetta er blandan og svona verður hún.“

En markmiðið er þá að halda í horfinu – styrkja það sem fyrir er í rekstrinum?

„Já, en á sama tíma höfum við metnaðarfull áform um vöxt. Við ætlum okkur að stækka félagið. Það verður bæði gert með því að efla núverandi starfsemi en svo skoðum við hvort einhver tækifæri eru fyrir hendi til að kaupa fyrirtæki sem myndu henta vel okkar rekstri – þar sem við gætum komið með eitthvað að borðinu og bætt það sem fyrir er.“

Ásgeir (t.v.) á Falljökli með Johnny Solie – MYND: ÁB

Er Arctic Adventures að hugsa um að fara á almennan markað með hlutabréf?

„Það var áður stefna félagsins. Áhuginn er enn fyrir hendi en segja má að búið sé að fresta áformunum. Með því að Alaska-hluturinn fór í burtu er Arctic Adventures ekki komið í þá stærð að vænlegt sé að setja félagið á markað. En markmiðið til lengri tíma er að tryggja að félagið verði hæft til skráningar á markaði. Það gæti orðið spennandi kostur í Kauphöllinni ef hægt væri að fjárfesta í þessari atvinnugrein – í öðru en flugfélögum.“

Útgerðir mætast í Grindavík – MYND: ÓJ

Mikill þrýstingur er á flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki um allan heim að draga úr losun og auka sjálfbærni. Þið eruð hinsvegar með bílaflota sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti. Mun ekki reyna á að umbreyta rekstrinum og minnka losun umtalsvert?

„Þetta er eitt af stóru málunum hjá okkur. Við lifum á því að sýna fólki náttúruna og verðum að treysta því að geta haft aðgang að henni í góðu ástandi. Við þurfum að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til okkar. Umhverfismálin eru eitt af stóru verkefnum okkar. Fyrirséð er að skipta verður út jarðefnaeldsneyti. Það styttist vonandi í að við tökum í notkun farartæki sem nota rafmagn og aðra vistvæna orkugjafa. Þangað til reynum við að draga úr mengun. Uppi á Langjökli sjáum við greinilega hvaða áhrif hlýnun jarðar hefur. Við notum tækifærið og fræðum fólk um þessi áhrif. Það er hluti af þeirri sögu sem við segjum að ekki sé víst að hægt verði að skoða jöklana að einhverjum árum liðnum. Fólk ætti að koma til Íslands á meðan jöklarnir eru þar enn.“

Bíll Arctic Adventures

Bíll Arctic Adventures á leið um Öxi í vor – MYND: ÓJ

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …