Óeirðir halda áfram í Frakklandi

Óeirðir halda áfram í Frakklandi og hafa ferðamenn verið hvattir til að gæta vel að sér, forðast átakasvæði og fylgjast með þróun mála. Macron Frakklandsforseti hefur afboðað komu sína á leiðtogafund Evrópusambandsins. Hann þarf að stýra neyðarfundum í París og leita leiða til að lægja öldurnar eftir að lögregla drap unglingspilt.

Frétt á vefsíðu franska dagblaðsins Le Monde

„Eftir þriðju óeirðanóttina ætlar ríkisstjórnin að leita allra leiða til að koma aftur á röð og reglu í lýðveldinu,“ segir í Le Monde. Þrátt fyrir að kallaðir hafi verið til um 40 þúsund lögreglu- og hermenn halda óeirðir áfram víða um Frakkland. Neistinn sem kveikti bálið var dráp lögreglu á 17 ára unglingi, Nahel M. Óeirðir brutust út í Nanterre, úthverfi í vesturhluta Parísar, en þær hafa síðan breiðst út. Fyrirtæki og lögreglustöðvar víða um land hafa orðið fyrir barðinu á mótmælendum. Nokkur hundruð manns hafa verið handteknir og miklar skemmdir verið unnar. 

Útgöngubann er í nokkrum bæum í útjaðri höfuðborgarinnar og fólki er meinað að halda fjöldasamkomur. Mótmæli hafa víða breyst í öldu skemmdarverka og þjófnaða í verslunum. 

Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til í París í því skyni að draga úr líkum á ólátum var að fella niður ferðir strætisvagna eftir klukkan 9 á kvöldin.

Tilkynnt var í morgun að Emmanuel Macron, forseti, hefði horfið af leiðtogafundi Evrópusambandsins í Brussel til að stýra neyðarfundum í París vegna ástandsins. Macron hefur hvatt fólk til að sýna stillingu en mótmælin reyna mjög á getu og áhrifavald forsetans., m.a. þegar haft er í huga hversu mikilvæg ferðaþjónusta er í landinu og að á næsta ári verða Parísarbúar gestgjafar á Ólympíuleikum. 

Sendiráð nokkurra ríkja og ferðasíður hafa þegar varað við óeirðunum í Frakklandi. Sendiráð Bandaríkjanna hefur m.a. gefið út slíkar viðvaranir og hvatt ferðafólk til að forðast svæði þar sem óeirðir eru, hafa samband við Rauða krossinn ef það kemst ekki leiðar sinnar, fylgjast með tilkynningum lögreglu í fjölmiðlum og láta fjölskyldu og ástvini vita af sér.

Meðal fjölmiðla sem birta frásagnir á ensku eru Le Monde, France 24 og RFI. Þá hafa áströlsk yfirvöld einnig varað sitt fólk við ástandinu í Frakklandi.

Signa

Á friðsælum degi í miðborg Parísar – MYND: ÓJ