Play fær að halda áfram í Amsterdam

Nú í sumar og næsta vetur verður hægt að fljúga héðan til Schiphol í Amsterdam með Play en líka Icelandair og Transavia. MYND: ÓJ

Útgerð Icelandair á Schiphol flugvelli í Amsterdam hefur lengi verið félaginu dýrmæt og Wow Air var einnig stórtækt í flugi til hollensku höfuðborgarinnar. Þarlend stjórnvöld vilja hins vegar draga úr umferðinni um flugvöllinn og því ekki hlaupið að því fyrir ný flugfélög, eins og Play, að fá þar afgreiðslutíma.

Play fékk til að mynda aðeins tímabundið leyfi fyrir flugi til Amsterdam í fyrra og svo aftur nú í sumar.

Áframhald verður á ferðum Play til Schiphol næsta vetur því samkvæmt tilkynningu þá hefur flugfélagið fengið heimild fyrir daglegu flugi til Schiphol frá og með lokum októbermánaðar þegar vetraráætlun fluggeirans hefst formlega.

„Flugfélög bíða í röðum eftir því að komast að á Schiphol-flugvelli og því er það einstakt afrek fyrir Play að fá þar lendingarleyfi og geta sett dagleg flug í sölu næsta vetur. Flugvöllurinn er sá fjórði stærsti í Evrópu og því mikilvæg viðbót í okkar leiðakerfi,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu.