SAS tekur við pöntunum í rafknúið flug

Skandinavíska flugfélagið SAS ákvað að skapa eftirvæntingu meðal viðskiptavina sinna gagnvart því að fljúga með kolefnishlutlausum flugvélum í náinni framtíð og tekur á morgun á móti pöntunum í fyrstu ferðirnar.

MYND: SAS

Lesendum gæti þótt ártalið 2028 fjarlægt en fimm ár eru ekki langur tími í flugsögunni. SAS setur þrýsting á sjálft sig og boðar áætlunarflug með raf- eða vetnisnúnum flugvélum það ár og býður viðskiptavinum sínum að tryggja sér sæti. Það er kannski ekki eins spennandi að fljúga á milli Gautaborgar og Stokhólms í kolefnishlutlausri vél eins og fara frá Flórídaskaga til Tunglsins með geimflaug en fyrri ferðakosturinn er augljóslega vistvænni og sjálfbærari.

Rafknúin flugvél Heart – MYND: Heart Aerospace

Á vefsíðu SAS er sagt frá því að á morgun, föstudaginn 2. júní, verði hægt að taka frá sæti í fyrstu raf- eða vetnisknúnu áætlunarferðirnar í innanlandsflugi í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Þau sem skrá nöfn sín fá upplýsingar um framvindu mála og tilhögun ferða. Það er nefnilega ekki ljóst hver verður flug- og flutningsgeta væntanlegra véla.

Meðal þeirra sem koma til greina eru rafflugvélar frá Heart Aerospace. Meira um það síðar, segir SAS, og bendir á að flugtæknin sé í mikilli og stöðugri þróun. Hinsvegar sé ekki á þessari stundu hægt að gefa tryggingu fyrir því að það takist að hefja áætlað rafflug 2028. Þau sem panta sæti en geta ekki nýtt það þegar kemur að flugi geta framselt réttinn til annarra.