Telja Icelandair miklu meira virði

Markaðsvirði íslenska flugfélagsins ætti að vera á pari við samanlagt virði Finnair og Norwegian samkvæmt nýju verðmati.

Þota Icelandair í jómfrúarferð félagsins til Prag nú í sumarbyrjun. Mynd: Icelandair

Hlutabréf í Icelandair hafa hækkað um fimm af hundraði í dag og kosta núna 2 krónur á hlut. Greiningafyrirtækið IFS telur bréfin þó vera mun meira virði samkvæmt nýju mati og fjárfestar hvattir til að kaupa bréf í flugfélaginu.

Verðmatið hljóðar upp á 3,35 krónur hlut sem er þá ríflega 68 prósent hærra verð en fæst fyrir bréfin í dag. Markaðsvirði félagsins færi upp í 276 milljarða króna ef gengið myndi hækka þetta mikið og þar með yrði Icelandair jafn verðmætt og Norwegian og Finnair eru í dag samanlagt.

Til samanburðar fluttu þessi tvö félög 2,9 milljónir farþega í síðasta mánuði en Icelandair 366 þúsund farþega. Stjórnendur Finnair hækkuðu afkomuspá sína fyrir árið í gær og Norwegian gerir ráð fyrir góðum gangi í ár.

Greining IFS nær til næstu 10 ára og þar er reiknað með að hagnaður Icelandair í ár verði 41 milljón dollara eftir skatt en sú upphæð jafngildir 5,6 milljörðum króna.