Tengifarþegar greiða líka varaflugvallargjald

Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Nýtt varaflugvallargjald verður innheimt af öllum farþegum sem náð hafa 2 ára aldri. MYND: ÓJ

Flugfélögin greiða 1.600 krónur fyrir hvern þann farþega sem fer í gegnum vopnaleitina í Leifsstöð að sumri til en 1.400 krónur yfir vetrarmánuðina. Tengifarþegar eru þó undanskildir þessu gjaldi en eðli málsins samkvæmt eru þeir allir á vegum Icelandair og Play.

Íslensku flugfélögin fá svo helmings afslátt á sérstöku flugstöðvarálagi fyrir tengifarþegana sína. Greiða 750 krónur í stað 1.500 króna.

Innheimta nýs varaflugvallagjalds, sem samþykkt var á Alþingi í síðustu viku, verður hins vegar með öðrum hætti því þá verða flugfélögin að greiða 200 krónur af öllum farþegum sem náð hefur 2 ára aldri. Gjaldið er lagt á við bæði komu og brottför og nær líka til tengifarþega. Icelandair og Play þurfa þó ekki að borga 200 krónur fyrir annan fluglegginn þegar þeir millilenda.