Þau sjö sem stýra eiga mótun íslenskrar ferðaþjónustu til framtíðar

Vinna við aðgerðaáætlun ferðaþjónustunnar er hafin á ný eftir langa bið sem skrifast helst á heimsfaraldurinn.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, fer fyrir ferðamálunum í ríkisstjórninni. Mynd: Stjórnarráðið

Það var í byrjun árs 2019 að skipaður stýrihópur sem hafði það hlutverk að setja fram drög að framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Verkefnið var unnið í samvinnu fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum ferðaþjónustunnar og Stjórnstöð ferðamála.

Vinnan var sett á ís þegar kórónuveirufaraldurinn hófst en ætlunin var að taka upp þráðinn nú í vor og áttu niðurstöður vinnunnar að liggja fyrir síðar í sumar. Af því verður þó ekki því stýrihóparnir sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, hefur skipað eiga fyrst að skila af sér þann 15. desember næstkomandi.

Um er að ræða sjö mismunandi hópa með 7 til 9 nefndarmönnum en formenn þeirra flestra tengjast í dag ferðaþjónustu með einhverju hætti.

Sjálfbærni og orkuskipti
Formaður: Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans.

Samkeppnishæfni og verðmætasköpun
Formaður: Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu.

Rannsóknir og nýsköpun
Formaður: Már Másson, framkvæmdastjóri Fossfall ráðgjafar.

Uppbygging áfangastaða
Formaður: Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Hæfni og gæði
Formaður: Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, dósent við Háskóla Íslands.

Heilsu-, veitinga- og hvataferðaþjónusta
Formaður: Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, markaðs-, og vöruþróunarsviðs Bláa lónsins.

Menningartengd ferðaþjónusta
Formaður: Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu.