„Það ástand sem við erum að horfa upp á nú, og er ein ástæðan fyrir því að það er svona mikil umframeftirspurn í hagkerfinu, er snörp viðreisn ferðaþjónustunnar. Þá þarf að beina sjónum að því að vera með einhverskonar stýritæki sem dempar sveiflur og vöxt í ferðaþjónustu þegar hann verður of mikill,“ segir Már Guðmundsson, fyrrum seðlabankastjóri, í viðtali við afmælisrit Vísbendingar sem kom út í gær.
Spurður um hvers konar stýritæki megi innleiða þá bendir Már á að það þurfi ekki að vera með örvandi hvata fyrir grein sem sé orðin jafn öflug og raunin er með ferðaþjónustuna.
„Aukinn straumur ferðamanna veldur hliðaráhrifum á aðra og sum þeirra eru neikvæð. Hún býr til kostnað fyrir þá sem fyrir eru og í prinsippinu ættu ferðamennirnir og greinin að greiða þann kostnað, til dæmis með komugjöldum, gistináttagjöldum eða með gjaldtöku á ferðamannastöðum. Það er þó ekki mitt að koma með patentlausnir á því,“ útskýrir Már.
Líkt og Túristi fór yfir í vikunni þá stefnir að ferðamenn hér á landi í sumar verði fleiri en nokkru sinni fyrr. Engu að síður hafa erlend flugfélög dregið úr Íslandsflugi frá því í fyrra. Hinn mikli vöxtur skrifast á aukin umsvif Icelandair og Play.

Félögin tvö leggja í dag minni áherslu á tengifarþega, þá sem aðeins millilenda á leiðinni yfir N-Atlantshafið, en raunin var þegar Icelandair og Wow Air voru með yfirburðastöðu á Keflavíkurflugvelli. Núna er fókusinn hjá íslensku flugfélögunum á að fá ferðamenn um borð og forstjóri Play á von á því að hlutfall þess farþegahóps hækki nú í sumar.
Túristi hefur spurt Icelandair um þróunina þar á bæ en ekki fengið svör.
Á þeim farþegatölum sem félagið hefur sent frá sér í vor sést að hlutfall ferðamanna í þotum Icelandair verður um 40 prósent á yfirstandandi ársfjórðungi. Á árunum sem félagið var rekið með hagnaði var hlutfallið um þriðjungur á þessum árstíma. Það munar um þetta aukna vægi túrista í þotunum enda stendur Icelandair undir hátt í sex af hverjum tíu áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli.

Til viðbótar við fjölgun ferða á vegum Icelandair og Play þá verða skemmtiferðaskipin í höfnum landsins fleiri í sumar en nokkurn tíma áður.