Þrjú skemmtiferðaskip með rúmlega sjö þúsund farþega

Jewel of the Sea og MSC Virtuosa. Viðey brosir á milli skipanna. MYND: ÓJ

Meira en sjö þúsund farþegar hafa streymt til og frá Sundahöfn í Reykjavík á einum annasamasta skipakomudegi ársins. Þrjú skemmtiferðaskip liggja við bryggju. Umferðarstýring hefur verið bætt á hafnarsvæðinu og farþegum bjóðast fleiri flutningsmöguleikar.

Það eru rútur af ýmsum gerðum frá mörgum ferðaþjónustufyrirtækjum sem sækja farþega skipanna í skipulagðar ferðir. Einnig eru í boði ferðir með borgarskutlum niður að Hörpu, útsýnisferðir í tveggja hæða strætó um höfuðborgina eða ferðir með leigubílum – og rafskutlum. Svo kjósa alltaf einhverjir að ganga sem leið liggur niður í miðbæ. 

Við Skarfabakka liggja tvö stærri skipin: MSC Virtuosa, skráð á Möltu, 177 þúsund tonn, sjósett 2020. Með skipinu komu 4.126 farþegar. Hitt skipið er Jewel of the Sea, skráð á Bahamaeyjum, 90 þúsund tonn, sjósett 2004. Með skipinu komu 2.254 farþega. Þriðja skipið liggur við Korngarð, Ambition frá Þýskalandi, 48 þúsund tonn, sjósett 1999. Með því eru um 900 farþegar.  

Búist er við 269 skemmtiferðaskipum til Reykjavíkur í sumar. Með þeim koma um 280 þúsund farþegar.