Frá miðjum október og fram í lok nóvember ætlar Icelandair að spreyta sig á ný á flugi milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar en þessar ferðir voru á dagskrá með hléum árin 2017 og 2018. Reyndar höfðu stjórnendur Icelandair uppi áform um að taka upp þráðinn nú í sumar en frestuðu því til vorsins 2024 eins og Túristi greindi frá á sínum tíma.
Núna liggur ekki fyrir hvort af því verði en flugferðirnar verða þó á dagskrá í sex vikur nú í byrjun vetrar sem fyrr segir. Eingöngu farþegar á leið í eða úr millilandaflugi geta nýtt sér þjónustuna og til að halda dvölinni í Leifsstöð í lágmarki þá er lagt í hann frá Akureyri rétt fyrir klukkan 6 að morgni. Farþegarnir ná því í morgunflugi Icelandair til Evrópu.
Á heimleiðinni er flogið frá Keflavíkurflugvelli klukkan 17 og því þarf að koma sér til Íslands frá Evrópu í fyrstu ferð dagsins. Akureyringur sem nýtir sér þetta tengiflug úr heimabyggð borgar skiljanlega meira en Reykvíkingur sem flýgur beint frá Keflavíkurflugvelli.
Helgarflug frá Akureyri til Kaupmannahafnar, með millilendingu á Keflavíkurflugvelli, kostar 71 þúsund krónur dagana 19. til 22. október. Sá sem flýgur beint frá Keflavíkurflugvelli til Danmerkur borgar 39 þúsund kr.
Ef ferðinni er heitið til Parísar frá Akureyri, dagana 6. til 10 nóvember, kostar það 69 þúsund krónur en 39 þúsund ef flogið er Keflavíkurflugvelli. Icelandair rukkar samkvæmt þessum tveimur dæmum um 15 þúsund krónur fyrir innanlandsflugið, hvora leið.