Afkoman ekki betri í 7 ár

Icelandair hefur birt uppgjör fyrir apríl, maí og júní.

MYND: DENVER FLUGVÖLLUR

Segja má að rekstur Icelandair hafi verið hálfgerð eyðimerkurganga frá árinu 2018. Þá fór kapphlaupið við Wow Air með reksturinn og þáverandi forstjóri sagði starfi sínu lausu. Árið eftir varð helsti keppinauturinn gjaldþrota en þá höfðu Boeing Max þotur félagsins verið kyrrsettar og aftur fór leiðakerfið úr skorðum.

Tap Icelandair var mikið þessi tvö ár en á sama tíma gekk rekstur flugfélaga almennt vel. Meira að segja SAS skilaði methagnaði á þessu tímabili.

Heimsfaraldurinn hófst svo í byrjun árs 2020 og þá datt botninnn úr rekstri Icelandair líkt og annarra flugfélaga. Í fyrra voru landamæri opin á ný og tapið minnkaði umtalsvert. Afkoman á fyrsta fjórðungi þessa árs olli hins vegar vonbrigðum.

Seinnipartinn í dag skilaði félagið svo uppgjöri fyrir annan ársfjórðung og ljóst má vera að gangurinn er mun betri en hann hefur verið í langan tíma. Rekstrarhagnaður nam 2,9 milljörðum króna eða 21 milljón bandaríkjadollara en Icelandair gerir upp í þeirri mynt. Svo mikill hefur hagnaðurinn ekki verið á þessum tíma árs frá árinu 2016 eins og sjá má hér fyrir neðan. Hagnaður fyrir skatt nam 2,1 milljarði króna.

Það ár voru tekjurnar 331 milljón dollarar en núna fóru þær upp í 414 milljónir sem jafngildir 57 milljörðum króna eða um 51 þúsund krónum á hvern farþega, aðra leið.

„Við erum stolt af því að skila bestu rekstrarniðurstöðu félagsins í öðrum ársfjórðungi síðan 2016 en það er árangur þrotlausrar vinnu okkar frábæra starfsfólks. Sterk tekjumyndun, sögulega há sætanýting og met tekjur í farþegaleiðakerfinu skilaði okkur næstum tveggja milljarða króna hagnaði. Lægri eldsneytiskostnaður vegna hagkvæmni Boeing 737 MAX vélanna og lægra eldsneytisverðs hafði einnig góð áhrif á afkomu félagsins. Þar að auki gekk leiguflugstarfsemi okkar áfram vel og skilaði góðri arðsemi í fjórðungnum,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Hann bætir því við að horfurnar séu góðar og ítrekar það sem áður hefur komið fram að reiknað er með að félagið verði réttum megin við núllið í ár.