Alla daga vikunnar til Rómar

Icelandair sér tækifæri í meiri umsvifum í höfuðborg Ítalíu.

Friðsæl morgunstund á Piazza del Popolo. MYND: ÓJ

Flugsamgöngur milli Íslands og Ítalíu eru mun tíðari í dag en þær voru á árunum fyrir heimsfaraldur og meðal nýjunga síðustu ára eru áætlunarferðir Icelandair til Rómar. Félagið spreytti sig fyrsta á þessari flugleið í fyrrasumar og þá með tveimur brottförum í viku.

Núna fljúga þotur félagsins til Rómar fimm daga vikunnar en næsta sumar eru á dagskrá daglegar brottfarir samkvæmt bókunarvél félagsins.

Aðspurður segir Guðni Sigurðsson, talsmaður Icelandair, að eftirspurnin eftir Rómarfluginu hafi verið sérstaklega mikil hjá tengifarþegum, þeim sem eru á leið milli Norður-Ameríku og Ítalíu.

„Með aukinni tíðni gerum við ráð fyrir að eftirspurnin aukist einnig til og frá Róm,“ bætir Guðni við.

Eins og Túristi hefur áður fjallað um þá koma nú til Íslands miklu fleiri ítalskir ferðamenn en áður. Á fyrri helmingi þessa árs voru þeir 31 þúsund en rétt 19 þúsund á sama tíma árið 2019. Ekki eru til tölur um ferðir Íslendinga til Ítalíu en ljóst má vera að ferðir landans þangað hafa aukist verulega síðustu tvö ár í takt við hinar bættu flugsamgöngur.