Bandarískir ferðamenn eyða miklu minna en áður

Rannsóknarsetur verslunarinnar horfði einungis til vaxandi kortaveltu bandarískra ferðamanna í júní síðastliðinn en ekki hversu miklu fleiri þeir voru hér á landi þá en í sama mánuði fyrra. Hlutfallsleg eyðsla bandarískra ferðamanna hefur dregist saman um þriðjung miðað við þær tölur sem liggja fyrir.

Notkun erlendra greiðslukorta hér á landi nam 36 milljörðum króna. MYND: ÓJ

Notkun erlendra greiðslukorta hér á landi nam 36 milljörðum króna í júní og þar af var hlutur bandarískra korta 14 milljarðar. Aldrei áður hafa Bandaríkjamenn eytt eins miklu hér á landi, líkt og bent er á í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar (RSV) undir fyrirsögninni „Bandarískir ferðamenn slá met“ en tilkynningin var jafnframt birt sem skoðanagrein á Vísi.

Aðrir fjölmiðlar hafa fjallað um málið í þeim tóni sem sleginn var með fréttatilkynningu RSV. Í hádegisfréttum RÚV var haft eftir framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar að skýringin á þessari miklu eyðslu Bandaríkjamanna væri meðal annars sú að þeir fari nú víðar um landið og gisti í fleiri nætur en áður.

Júnímánuður var svalur fyrir sunnan. Bandarískir ferðamenn í bókabúð í Reykjavík – MYND: ÓJ

Túristi bendir hins vegar á að tölur Ferðamálastofu sýna að bandarískir ferðamenn hér á landi í nýliðnum júní voru 101 þúsund talsins eða nærri tvöfalt fleiri en í júní í fyrra! Kortavelta jókst þó aðeins rúman fjórðung og því nam eyðslan á hvern Bandaríkjamann um 140 þúsund krónum í síðasta mánuði en hún var 207 þúsund kr. í júní í fyrra. Lækkunin nemur þriðjungi – eða 38 prósentum, ef tekið er tillit til verðlagsþróunar á milli ára.

Þessi meinti metmánuður, júní 2023, kemur heldur ekki vel út í samanburði við júní árin 2016 til 2019, eins og sjá má hér fyrir neðan en þar eru tölurnar umreiknaðar miðað við verðlagsþróun. Eyðsla á hvern Bandaríkjamann er mun lægri en þá var.

Ferðamaður sem keypti sér kaffibolla – MYND: ÓJ

Meðaleyðslan er meira að segja töluvert undir því sem hún var í júní 2018 en þegar sumarvertíðin það ár var gerð upp þótti slakt hversu lítil kortavelta Bandaríkjamanna var í samanburði við árin á undan. Sú þróun var skrifuð á mikið framboð á ódýru Íslandsflugi frá Bandaríkjunum, enda voru Icelandair og Wow Air þá í harðri samkeppni vestanhafs.

Spurður um framsetningu fyrrnefndar fréttatilkynningar og pistils, þá segir Magnús Sigurbjörnsson, forstöðumaður RSV, að eingöngu hafi verið horft til kortaveltutölu en ekki til fjölda ferðamanna.

Kortavelta Bandaríkjamanna í þeirra eigin mynt, bandaríkjadollar, var líka miklu lægri núna en verið hefur í júní eins og sjá má á grafinu. Núna eyddi hver og einn Bandaríkjamaður rétt um eitt þúsund dollurum sem er nærri helmingi minna en í júní árið 2017.