Biðjast afsökunar á blárri móðu sem legið hefur yfir Akureyri

Skemmtiferðaskipið MS Zuiderdam. MYND: JÓNAS GODSK

Íbúar á Akureyri hafa deilt myndum á samfélagsmiðlum í dag af blárri móðu frá skemmtiferðaskipinu MS Zuiderdam sem liggur þar við festar. Spurð um málið þá sagði Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, að ástandið væri alls ekki nógu gott og bætti því við að eitthvað hlyti að vera að í skipinu.

Og það var raunin því samkvæmt svari útgerðar MS Zuiderdam, við fyrirspurn Túrista, þá kom upp bilun í hitunarkerfi skipsins sem olli því að óvenjumikil vatnsgufa myndaðist en hún hafi verið skaðlaus. „Við biðjumst afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið,“ segir jafnframt í svari Holland America skipafélagsins.

Þegar spurt er út óþefinn sem fylgdi gufunni þá bætir upplýsingafulltrúi skipafélagsins því við að svörin hér að ofan byggi á skýrslu skipstjóra og vélstóra MS Zuiderdam um tilvikið.

Líka á Ísafirði

Ástandið á Akureyri í dag er þó ekki einsdæmi því fjallað hefur verið um mengun frá skemmtiferðaskipum í fjölmiðlum síðustu vikur. Túristi heimsótti til að mynda Ísafjörð í þarsíðustu viku og fór yfir stöðuna þar í bæ en þá var einmitt MS Zuiderdam í höfn fyrir vestan. 

Hilmar Kristjánsson Lyngmo, hafnarstjóri á Ísafirði, var spurður út í móðuna sem þá hékk yfir bænum og játti hann því að honum þætti ástandið ekki viðunandi.

Hafa ekki áhyggjur af ímyndinni

Forsvarsfólk Samtaka ferðaþjónustunnar hefur þó ekki áhyggjur af því að ímynd Íslands sem áfangastaðar bíði skaði af reyknum, móðunni eða gufunni sem stígur frá skemmtiferðakipum í höfnum landsins. Í svari til Túrista bendir Skapti Örn Ólafsson, upplýsingafulltrúi SAF, á að 80 skemmtiferðaskip hafi komið til Akureyrar í sumar og þrisvar sinnum hafi komið upp óvenjuleg tilvik eins og í dag. 

„Í langflestum af þeim skipum sem sækja íslenskar hafnir heim er fullkominn mengunarvarnarbúnaður sem á að grípa brennistein og agnir sem myndast. Það sem við sjáum er því oft mest megnis gufa en brennisteinn er hreinsaður úr útblæstrinum um sirka 98%. 

Það er aldrei gott ef heimamenn eru ósáttir, en við höfum ekki áhyggjur af því að ímynd landsins sem umhverfisvænn áfangastaður skaðist enda notast fólk almennt við samgöngutæki til að komast til Íslands og ferðast um landið,“ segir Skapti Örn Ólafsson, talsmaður SAF, í svari til Túrista.

TENGT: Óhóflegar álögur á skemmtiferðaskip yrðu ekkert nema landsbyggðaskattur