Dönsk þingkona rekin af íbúðahóteli eftir að hún kvartaði á Facebook

Flestir kyngja líklega vonbrigðum sínum vegna ástands hótelíbúða eða forða sér einfaldlega annað. Fulltrúi Frjálslynda bandalagsins á danska þjóðþinginu, Katrine Daugaard, var ekki á þeim buxunum og kvartaði á Facebook um sóðaskap á nafngreindu hóteli á Krít. Hún var beðin um að hypja sig í burtu.

Færsla dönsku þingkonunnar Katrine Daugard á Facebook MYND: Facebook

Enginn vill lenda í því í sumarfríinu að íbúðin eða herbergið sem búið var að panta og greiða fyrir standist alls ekki væntingar. Hvað gerir maður í slíkum tilvikum? Vissulega hefur fólk ólík viðmið hvað varðar þrifnað, er mismunandi smámunasamt og kvartsárt, en ein regla er almennt viðurkennd: Vistarverur sem leigðar eru út eiga að vera hreinar þegar nýir gestir hefja þar dvöl sína. Erfiðara er að greina myglu og áhrif hennar. Sumir veikjast strax af myglu, öðrum þykir lyktin af henni hvimleið en venjast henni – og svo er það þriðji hópurinn sem finnur enga lykt og veit ekki hvað verið er að tala um. En hversu löngum tíma á gesturinn að verja í að fá leiðréttingu sinna mála? Ef fyrirhuguð dvöl er stutt tekur því varla að rífast í marga daga við húsráðendur. Ef ferðaskrifstofa hefur annast útleigu á að beina kvörtunum til hennar.

Danska þingkonan Katrine Daugaard hikaði ekki þegar hún taldi hótelíbúð á Krít ekki íbúðarhæfa, sóðalega og lyktandi af myglu. Eftir að hafa gist þar eina nótt með börnum sínum lét hún hóteleigandann vita og segist líka hafa kvartað til ferðaskrifstofunnar sem seldi ferðina. Hóteleigandinn sagði að íbúðin yrði þrifin aftur og bauð dönsku gestunum aðra íbúð á hótelinu næsta dag en þingkonan sætti sig ekki við þá bið og birti harðorða lýsingu með myndum á Facebook-síðu sinni:

„Er komin í skítugustu og verst lyktandi mygluíbúð ævinnar. Alveg botninn!“

Hóteleigandinn brást hart við þessu og tilkynnti að Katrine Daugaard yrði að hypja sig í burtu innan tveggja stunda:

„Okkur þykir leitt að við uppfyllum ekki kröfur þínar. Þú stenst heldur ekki þær kröfur sem við gerum til gesta okkar og biðjum þig þess vegna að yfirgefa hótelið.“

Færsla frá Petra Village á Krít á þræði dönsku þingkonunnar – MYND: Facebook

Miklar umræður urðu um þetta á Facebook og athygli fjölmiðla í Danmörku vaknaði. Berglingske Tidende fór í málið og leitaði viðbragða frá hóteleigandanum og þingkonunni, sem nú dvelur í góðu yfirlæti á nýjum stað á eynni. Ekki er víst að Petra Village fái marga danska gesti á næstunni.

Katrine Daugaard – MYND: Danska þjóðþingið/Marie Hald

Það á hinsvegar eftir að koma í ljós hvort þetta mál hefur áhrif á stöðu og álit stjórnmálamannsins Katrine Daugaard. Gekk hún fram af of mikilli hörku? Misnotaði hún stöðu sína sem opinber persóna og fór offari gagnvart litlu fjölskyldufyrirtæki í útlöndum?

Hóteleigandinn sakar Daugaard um frekju og yfirgang, m.a. með því að öskra á sig fyrir framan hóp gesta í afgreiðslusal en því neitar þingkonan. Fram kemur í Berlingske Tidende að hóteleigandinn hafi ekki vitað áður en færslan birtist á Facebook að óánægði gesturinn væri stjórnmálamaður:

„Þetta er fjölskyldufyrirtæki og í þau 22 ár sem ég hef starfað hér höfum við aldrei áður upplifað aðra eins framkomu af hálfu gests okkar. Þó að þér sé falið vald hefur þú engan rétt til að vera með dónaskap við starfsfólk okkar og vega að starfi okkar og orðspori, sem við höfum haft mikið fyrir að byggja upp á 22 árum.“