Efnahagsástandið hefur áhrif á ferðaplön

Ferðalangar á Akrópólíshæð. MYND: ÓJ

Hlutfall Evrópubúa sem hyggur á ferðalög á tímabilinu júní til nóvember 2023 dregst saman um 4 prósent miðað við síðasta ár, eða úr 73 í 69 prósent. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Evrópska ferðamálaráðinu (ETC) og Ferðmálastofa greinir frá.

Austurríkismenn, Svisslendingar og Þjóðverjar skera sig úr sem þær þjóðir sem síst hyggja á ferðalög en aftur á móti eru Frakkar, Belgar og Bretar áhugasamir um að ferðast á sama tímabili.

Þótt áhrifa Covid kunni enn að gæta þegar kemur að ferðavilja fólks þá segir ETC margt benda til þess að staða efnahagsmála hafi einnig talsverð áhrif, s.s. áhyggjur af verðbólgu og persónulegum fjármálum.

Engu að síður eru Evrópubúar enn áhugasamir um að ferðast á næstu mánuðum. Margir eru að leita að öðruvísi ferðamöguleikum en verið hefur, leita að hagkvæmari upplifunum eða íhuga ferðalög utan háannar til að nýta fjármuni sína betur. ETC bendir á að í þessu gætu falist tækifæri og hvetur ferðaþjónustufyrirtæki til að nýta þessa þróun og aðstoða ferðafólk við að fara ótroðnar slóðir og ferðast á þeim árstíma sem minna hefur verið að gera.