Færri Íslendingar til Tenerife

Hægst hefur á straumi íslenskra ferðamanna til Tenerife. Færri flugu þangað í júní en í sama mánuði í fyrra.

Fyrir utan flugstöðina á suðurhluta Tenerife. MYND: AENA

Fyrstu fimm mánuði ársins flugu fleiri héðan til Tenerife en það gerðu á sama tíma í fyrra. Viðbótin var mest í janúar og febrúar enda hafði Covid-faraldurinn ennþá áhrif á ferðalög fólks í ársbyrjun 2022. Í mars, apríl og maí voru íslensku farþegarnir á flugstöðinni Tenerife Sur Reina Sofia á suðurhluta Tenerife líka fleiri en á sama tíma í fyrra.

Í júní snérist þetta hins vegar við því þá lentu 5.904 farþegar frá Íslandi á Tenerife. Það er fækkun um 206 farþega frá júní í fyrra. Ekki fækkaði flugferðunum frá Keflvíkurflugvelli til Tenerife. Þeim fjölgaði úr 34 í 36 samkvæmt ferðagögnum Túrista. Það voru því sæti núna fyrir hátt í 350 fleiri farþega.

Aftur á móti var ekkert flug frá Akureyri til spænsku eyjarinnar í júní sl. en í fyrra flaug félagið vikulega þessa leið og voru sæti fyrir um 150 farþega í hverri þotur. Framboðið dróst því saman í heildina.