Fengu verðlaun fyrir landkynningu

Markaðsfólk Icelandair tók á móti verðlaununum á mánudagskvöld í London. MYND: ICELANDAIR

Icelandair hlaut á mánudagskvöldið verðlaun fyrir herferð sína Iceland: Around The Corner en sú herferð stóð yfir í fjóra daga í London sl. haust.

„Segja má að ís, land og loft hafi verið flutt til London til að gefa almenningi þar kost á að kynnast mörgum af megineinkennum Íslands og íslensku þjóðarinnar; einstöku landslagi og menningu, mat og drykk, lifandi tónlist og hraunrennsli. Gestir voru leiddir um tilbúin ísgöng og gátu slappað af, fullklæddir, í Bláa lóninu. Íslenskt tónlistar- og listafólk kom fram og boðið var upp á séríslenskan mat og drykk. Til að fullkomna fjölbreytnina mátti sjá og upplifa raunverulegt íslenskt hraunflóð í miðborg London á meðan á viðburðinum stóð,“ segir í tilkynningu.

Þar segir að tilgangur viðburðarins hafi að kynna Ísland fyrir almenningi í London og auka og mynda tengsl við ferðaþjónustuaðila í Bretlandi enda sé Bretlandsmarkaður „gríðarlega mikilvægur“ fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu, sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

„Það er okkur mikill heiður að fá þessi verðlaun. Fyrir okkur sanna verðlaunin gildi og árangur upplifunarmarkaðssetningar og hvernig hún skilar ósvikinni og ógleymanlegri upplifun. Árangurinn sýnir einnig mikilvægi samstarfs í íslenskri ferðaþjónustu en við héldum viðburðinn með Íslandsstofu, 66°Norður og Bláa lóninu. Við erum þakklát öllum þeim sem komu að málinu og lögðu okkur lið við að veita þúsundum Lundúnabúa innsýn í náttúruundur Íslands í hjarta Soho,“ segir Gísli Brynjólfsson, markaðsstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Icelandair hyggst endurtaka upplifunina í Boston og Kaupmannahöfn á næstu mánuðum og bjóða þannig þúsundum mögulegra ferðamanna að upplifa og uppgötva Ísland, í sinni heimabyggð.