Ferðamannastraumurinn í júní á pari við metárið

Ferðafólk á Ísafirði en farþegar skemmtiferðaskipa eru ekki taldir með í tölum Ferðamálastofu. MYND: ÓJ

Það voru 233 þúsund útlendingar sem innrituðu sig í flug frá Keflavíkurflugvelli í júní en sú talning er notuð til að leggja mat á fjölda ferðamanna hér á landi. Erlendu brottfararfarþegarnir voru jafn margir í júní 2018 en það ár komu fleiri ferðamenn hingað en dæmi eru um.

Sem fyrr eru það Bandaríkjamenn sem eru fjölmennastir því 43 af hverjum 100 ferðamönnum á landinu voru með bandarískt vegabréf. Þjóðverjar voru næst fjölmennasti og svo komu Pólverjar en þess ber að geta að útlendingar, búsettir á Íslandi, eru meðtaldir.

Farþegar skemmtiferðaskipa eru hins vegar ekki hluti af þessum tölum.