Fimmtungi fleiri farþegar en í fyrra

MYND: ÓJ

Farþegar í áætlunarflugi Icelandair voru 519 þúsund í júní og þar af 493 þúsund í millilandaflugi. Aukningin nemur fimmtungi frá júní í fyrra en á fyrri helmingi ársins stækkaði farþegahópurinn um 31 prósent miðað við fyrstu sex mánuði síðasta árs. Þetta kemur fram í flutningatölum júnímánaðar sem Icelandair birti nú í morgunsárið.

„Sumarið hefur byrjað af krafti hjá Icelandair með yfir hálfa milljón farþega í júnímánuði. Starfsfólki félagsins hefur fjölgað umtalsvert að undanförnu og tókst hópnum vel til við að halda uppi öflugu leiðakerfi félagsins í mánuðinum. Við höldum áfram að sjá mikinn áhuga á ferðum til Íslands og til marks um það var slegið met í sætanýtingu til og frá Norður-Ameríku,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.

Að jafnaði voru 86 af hverjum 100 sætum skipuð farþegum í ferðum Icelandair í júní sem er aukning frá sama tíma í fyrra en sama hlutfall en lækkun frá sumrinu 2019 eins og sjá má hér fyrir neðan.

Millilandaflug Icelandair var aðeins á réttum tíma í tveimur af hverjum þremur tilvikum í júní en stundvísi félagsins hefur verið nokkru verri en hjá helsta keppinautnum að undanförnu. Í innanlandsfluginu gengur félaginu mun betur að halda áætlun því þar voru 9 af hverjum 10 ferðum á réttum tíma.