Forstjóri flugfélags mælir með lestarferðum

Þota KLM við Schiphol. MYND: ÓJ

Flugumferðin um Schiphol í Amsterdam verður skorin niður á næsta ári að öllu óbreyttu til að draga úr bæði loftmengun og hávaða við þessa þriðja fjölförnustu flughöfn Evrópu. Schiphol er heimavöllur KLM flugfélagsins og forstjóri þess, Marjan Rintel, sér tækifæri í að farþegar félagsins nýti sér lestarsamgöngur í auknum mæli á styttri leiðum.

Þar á meðal til Brussel en þangað fljúga þotur KLM fjórum sinnum á dag og tekur flugferðin 55 mínútur. Ferðalag með lest tekur nærri tvöfalt lengri tíma en losun á hvern flugfarþegaer hins vegar fjórtán sinnum meiri á þessari leið að því segir í frétt Politico.

Ennþá eru lestarsamgöngurnar milli Brussel og Schiphol of takmarkaðar til að geta algjörlega við fluginu að sögn Rintel, forstjóra KLM, en hún ætti að þekkja afköst lestarkerfisins vel enda leiddi hún hollenska ríkislestarfyrirtækið áður hún tók við hollenska flugfélaginu.

Það eru fleiri stór evrópsk flugfélög sem horfa í auknum mæli til þess að tengjast lestarkerfinu. Þannig stendur farþegum Lufthansa til boða að kaupa lestarmiða til og frá Frankfurt flugvelli í tengslum við kaup á flugmiða. Air France býður líka upp á þess háttar en frönsk stjórnvöld hafa að nafninu til bannað allar styttri flugferðir í landinu. Alls kyns undanþágur eru hins vegar veittar frá banninu sem ennþá hefur bara haft áhrif á þrjár franskar flugleiðir samkvæmt frétt Politico.