Framför hjá Play

Rekstur Play var réttum megin við núllið síðustu þrjá mánuði en afkoman var þó neikvæð.

Play flutti 392 þúsund farþega á öðrum ársfjórðungi og sætanýting var 85 prósent. MYND: AIA

Hagnaðurinn af rekstri Play á síðasta ársfjórðungi, apríl til júní, nam 57 milljónum króna en á sama tíma í fyrra var rekstrartapið 1,9 milljarðar kr. Þegar fjármagnskostnaður er tekinn með í reikninginn var tapið 710 milljónir króna fyrir skatt.

Umsvif Play hafa aukist hratt síðustu misseri og flutti félagið rúmlega tvöfalt fleiri farþega á síðasta ársfjórðungi í samanburði við sama tímabili í fyrra. Tekjurnar hækkuðu álíka mikið og reikna stjórnendur Play með því að rekstur félagsins verði réttum megin við núllið í ár þó heildarafkoman verði neikvæð.

„Fjárhagsleg niðurstaða fór fram úr væntingum sem styður við fyrri spár um að ná rekstrarhagnaði á árinu 2023, sem er afrek fyrir ungt félag á sínu öðru heila starfsári,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

Í því samhengi má rifja upp að þegar Play seldi hlutabréf fyrir rúmlega 10 milljarða króna, í sumarbyrjun 2021, þá kynnti félagið fjárfestum spá sem gerði ráð fyrir hagnaði strax árið eftir. Það gekk ekki eftir og í heildina hefur Play tapað 15 milljörðum króna frá ársbyrjun 2021 og fram á mitt þetta ár.

4 af hverjum 10 Íslendingum út með Play

Sem fyrr segir hefur Play stækkað hratt í ár og bætt við fjölda nýrra áfangastaða. Fyrir sumarið bættust þrettán nýir við og í tilkynningu Play segir að 41 prósent þeirra Íslendinga sem flugu til útlanda í apríl, maí og júní hafi ferðast með félaginu. Til samanburðar stóð Play undir tæplega fimmtungi af flugumferðinni frá Keflavíkurflugvelli á þessu tímabili.

Forstjóri Play segist sérlega stoltur af markaðshlutdeildinni á heimamarkaðnum og segir flugfélagið á góðri leið með að vera fyrsta val íslenskra ferðalanga.

Miðað við afkomuna hjá Play má þó ljóst vera að fargjöld félagsins eru ennþá of lág. Félagið hefur nefnilega náð markmiðum sínum á kostnaðarhliðinni því einingakostnaðurinn á síðasta ársfjórðungi var á pari við að sem boðað var í tengslum við hlutabréfasöluna í sumarbyrjun 2021. En ekki tekjurnar.