Íslenska vegabréfið á topp 10

vegabref 2
Íslensk vegabréf eru gjaldgeng í 182 löndum án vegabréfsáritunar. MYND: ÞJÓÐSKRÁ

Það er oft ekki hlaupið að því fyrir íslenska ferðalanga að fá vegabréfsáritanir enda fáar þjóðir með sendiráð hér á landi. Það er því bót í máli að íslenski passinn er tekinn gildur, einn og sér, í 182 löndum.

Það er með því betra sem þekkist samkvæmt árlegum lista Henley&Partners yfir bestu vegabréfin því núna deilir það íslenska 10. sætinu með eistneska passanum. Síðustu ár hefur íslenska vegabréfið verið í 11. til 12. sæti en nú hafa tvö ónefnd ríki bæst við listann yfir þau sem ekki krefja Íslendinga um vegabréfsáritun og eru þau því samtals 182 talsins.

Þrátt fyrir þessa bætingu þá þurfa Íslendingar að sækja um vegabréfsáritanir í aðeins fleiri tilfellum en frændþjóðirnar. Finnar og Svíar komast til að mynda óhindrað inn fyrir 189 landamæri en könnun Henley&Partners nær til 224 landa og svæða.

Síðustu ár hefur japanska vegabréfið verið það sem flestir taka gild en nú er passinn þeirra í Singapúr kominn á toppinn.