Það voru ekki mörg sæti laus í þotum Ryanair og Wizz Air, tveggja stærstu lágfargjaldaflugfélaga Evrópu, í síðasta mánuði. Hjá Ryanair var sætanýtingin 95 prósent og 92 prósent hjá Wizz Air. Þetta kemur fram í farþegatölum félaganna sem birtar voru í morgun.
Framboð beggja félaga hefur aukist umtalsvert frá síðustu sumarvertíð en samtals nýttu 5,3 milljónir farþega sér ferðir Wizz Air í júní en farþegahópurinn hjá Ryanair var þrisvar sinnum fjölmennari.
Wizz Air heldur úti Íslandsflugi frá 12 borgum en Ísland er eitt fjögurra landa í Evrópu sem ekki hefur komist á kortið hjá Ryanair.