Það hefur færst í vöxt að Íslendingar fljúgi til útlanda til að fara til læknis og þá sérstaklega tannlæknis. Hér á landi eru þess háttar heimsóknir meðal annars seldar með flugi og gistingu og nú vilja Neytendasamtökin fá úr því skorið hvort þessi þjónusta falli undir lög um pakkaferðir að sögn Breka Karlssonar, formanns samtakanna.
Óskað hefur verið eftir áliti Ferðamálastofu og Neytendastofu á þessum þætti en réttur farþega sem kaupa pakkaferðir er mun meiri en þeirra sem til dæmis panta flug og gistingu í sitthvoru lagi. Þeir sem selja pakkaferðir verða líka að hafa ferðaskrifstofuleyfi og greiða í ferðatryggingasjóð sem Ferðamálastofa hefur umsjón með.
Neytendasamtökin vilja einnig að Embætti landlæknis skoði auglýsingar á læknisferðum til útlanda og bendir Breki á að auglýsingar á heilbrigðisþjónustu séu aðeins leyfðar í einstaka tilvikum, til að mynda þegar læknastofa tekur til starfa eða flytur í nýtt húsnæði. Ekki sé hægt að sjá að fyrrnefndar auglýsingar uppfylli þessi skilyrði.
„Þetta allt verða þar til bær stjórnvöld að rannsaka fljótt og vel, svo neytendur verði ekki fyrir skaða,“ segir formaður Neytendasamtakanna.