Lengri bið eftir hóteli á Sjallareitnum

Þau 300 hótelherbergi sem í boði eru á Akureyri allt árið um kring eru vel nýtt á sumrin. Öðru máli gegnir um veturinn. Skemmtiferðaskip streyma til bæjarins með þúsundir gesta sem gista um borð.

Ferðafrömuðir fyrir norðan hafa talað um hótelkrísu á Akureyri. Ennþá lengist þó biðin eftir nýju stóru hóteli þar í bæ. MYND: ÓJ

Þó hótelherbergi á Akureyri séu vanalega uppbókuð yfir sumarmánuðina og „ofboðslegur þrýstingur“ sé frá erlendum ferðaskifstofum um nýtt stórt hótel í bænum þá hefur lítið gerst í uppbyggingu á þessu sviði í bænum.

Hótel KEA er ennþá stærsta hótelið á Akureyri en það var tekið í notkun 1944 en var síðar stækkað. Þau hótel sem bæst hafa við eru í húsnæði sem upphaflega var byggt í öðrum tilgangi. Icelandair hótelið er til dæmis í húsnæði Iðnskólans við Þingvallastræti.

Skemmtiferðaskip í Akureyrarhöfn með þúsundir gesta um borð. Mynd: ÓJ

Það stefndi því í ákveðin tímamót þegar Fjárfestingafélagið KEA kynnti áform um byggingu 150 herbergja hótels við Hafnarstræti 80, þar sem áður var umferðarmiðstöð. Hótelið átti að verða það stærsta í bænum og stefnt var að opnun árið 2019. Fall Wow Air og óvissa í ferðaþjónustunni fyrir heimsfaraldur munu hafa gert fjármögnum verkefnisins erfiða og ekkert varð af hótelbyggingunni.

Þess má geta að Fjárfestingafélagið KEA tengist ekki Hótel KEA að nokkru leyti því húsnæði hótelsins er í eigu fasteignafélagsins Regins og hótelreksturinn í eigu Keahótela.

Hótel á vegum Kaupfélags Eyfirðinga var opnað á besta stað árið 1944. Mynd: ÓJ

Biðin eftir hóteli á Sjallareitnum er líka orðin löng en Íslandshótel keyptu Sjallann árið 2016 en þá voru þrjú ár liðin frá því að bæjaryfirvöld samþykktu nýja byggingu á lóðinni. Síðastliðið sumar hafði Akureyri.net það eftir Davíð Torfa Ólafssyni forstjóra Íslandshótela, að nú færi að styttast í framkvæmdir og á nýja hótelinu yrðu 130 til 140 herbergi.

Ennþá eru framkvæmdir ekki hafnar og spurður um stöðu mála í dag þá segir Davíð Torfi, í svari til Túrista, að ennþá sé unnið að hönnun hótelsins en ekki sé hægt að segja á þessari stundu hvenær framkvæmdir hefjist. Hann segir ljóst að hótelið muni ekki opna fyrir sumarvertíðina 2025 en vill ekki fastsetja ártal við opnunina því ekkert liggi fyrir í þeim efnum. „Við erum bara að fara okkur hægt og vanda okkur í uppbyggingunni,“ segir Davíð Torfi.

Svona á húsaröðin við Hafnarstræti að líta út – MYND: Hótel Akureyri

Þrátt fyrir lengri bið eftir Íslandshóteli á Akureyri þá munu ferðamenn þar í bæ hafa úr fleiri hótelherbergjum að velja á næsta ári því viðbygging við Hótel Akureyri verður tekin í notkun í desember. Eigendur þess hafa jafnframt uppi áform eru um meiri stækkun á gistirými hótelsins við Hafnarstræti. Hótelbygging við hlið Skógarbaðanna er einnig á teikniborðinu.

Það munu miklu fleiri ferðamenn fljúga beint norður í vetur en áður á þessum tíma árs. Mynd: MN

Sem fyrr segir eru hótelherbergin á Akureyri vel nýtt yfir sumarið en öðru máli gegnir um vetrarmánuðina. Það stefnir þó í betri stöðu því breska flugfélagið Easyjet ætlar að halda úti áætlunarflugi milli London og Akureyrar í vetur. Í boði verða tvær ferðir í viku og ef allt gengur upp þá munu á bilinu 120 til 150 breskir ferðamenn koma í hverri ferð. Þörfin fyrir gistingu eykst því umtalsvert en á Akureyri eru aðeins um 300 hótelherbergi í útleigu allt árið um kring. Aukin framboð á millilandaflugi til og frá bænum yfir vetrarmánuðina gæti því fljótt orðið áskorun.