Enn bólar ekki á eldgosi við Fagradalsfjall en gosið þar fyrir rúmum tveimur árum síðan þótti hin allra besta landkynning enda flokkað sem túristagos. Hversu öflugt það næsta verður kemur kannski í ljós á næstu sólarhringum en ljóst má vera að ef það gýs þá vekur það athygli út fyrir landsteinana.
Hvað sem verður þá er áhugi útlendinga á eldstöðvunum við Fagradalsfjall nú þegar töluverður eins og heyra hefur mátt í fréttum síðustu daga. Nýtt gos eykur þá aðdráttarafl eldfjallsins, að því gefnu að það verði álíka hófstillt og það síðasta.
Erlendir ferðamenn munu því áfram setja stefnuna á Fagradalsfjall og nú getur hluti þeirra flogið hingað með þotu sem ber heiti eldfjallsins.
Um er að ræða nýjustu Boeing Max þotu Icelandair sem tekin var í notkun í byrjun mánaðar. Þetta er átjánda þotan af þessari tegund sem Icelandair fær og Max þoturnar því orðnar uppistaðan í flota félagsins. Áður fyrr voru það Boeing 757 þoturnar en núna eru aðeins tíu þess háttar flugvélar nýttar í áætlunarflug Icelandair.