Meira en þriðja hver þota fer of seint í loftið frá Keflavíkurflugvelli

Stundvísi í flugi til og frá landinu er mun minni en lagt er upp með.

Sem fyrr eru ferðir Play oftar á áætlun en ferðir Icelandair Mynd: Isavia

Það sem af er júlímánuði hafa 74 prósent flugferða komið á réttum tíma en rétt 63 prósent brottfara hefur verið á áætlun. Þetta er töluvert frá markmiði Isavia um að áætlun Keflavíkurflugvallar standist í 85 af hverjum 100 tilvikum.

Svo góð hefur stundvísin ekki verið allt þetta ár en skást var hún í apríl þegar ríflega þrjár af fjórum ferðum voru á áætlun. Icelandair er lang umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli og frammistaða þess félags ræður því mestu um það hvort áætlun flugvallarins standist eða ekki eins og sjá má á línuritunum.

Sem fyrr eru ferðir Play oftar á réttum tíma en raunin er hjá Icelandair en bilið á milli félaganna hefur minnkað nú í júlí.