Í Noregi eru það Norwegian, SAS og Widerøe sem eru stórtækust í flugi milli norska borga og bæja. Fyrrnefndu félögin einbeita sér helst að flugi milli fjölmennustu staðanna á meðan það síðastnefnda heldur að mestu út ferðum til minni bæja en félagið var í eigu SAS fram til ársins 2013.
Nú í morgunsárið var tilkynnt að Norwegian hefði keypt allt hlutafé í Widerøe og greitt fyrir 1,1 milljarð norskra króna. Sú upphæð jafngildir 14,1 milljarði íslenskra króna en til samanburðar er markaðsvirði Play 11,7 milljarðar króna í dag.
Geir Karlsen, forstjóri Norwegian, segir þessi kaup marka tímamót í norskri flugsögu en ætlunin er að reka félögin áfram undir sitthvoru nafninu.
Í flota Widerøe eru hátt í fimmtíu flugvélar og flestar af sömu tegund og Icelandair notar í innanlandsflugið hjá sér.
Widerøe er með um fimmtungs hlutdeild á norska markaðnum samkvæmt frétt DN en tekjur félagsins í fyrra voru innan við þriðjungur af tekjum Norwegian
Í Noregi treysta heimamenn á flug í meira mæli en í Svíþjóð til að komast á milli borga og bæja. Því þótt löndin tvö séu bæði mjög löng þá liggja lestarteinar ekki eins víða í Noregi og raunin er í Svíþjóð. Til marks um þetta þá var samdrátturinn á norska flugmarkaðnum í heimsfaraldrinum mun minni en víðast hvar annars staðar. Af þeim sökum reyndi ungverska lágfargjaldaflugfélagið Wizz Air fyrir sér í flugi milli norska borga en gafst upp, meðal annars vegna andstöðu stjórnmálamanna og verkalýðsforkólfa eins og Túristi hefur fjallað um.