Nýtt bílastæðakerfi á Keflavíkurflugvelli

Nýtt aðgangskerfi hefur verið tekið í notkun við langtíma bílastæðin á Keflavíkurflugvelli. Númeralesari leysir af hólmi greiðslukortin og aðgöngumiðana.

Bílastæðin við kefblavíkurflugvöll eru oftast þéttskipuð MYND: ÓJ

Túristi greindi frá því í apríl að nýtt aðgöngukerfi yrði tekið í notkun í sumar við bílastæðin. Maren Lind Másdóttir, forstöðumaður mannvirkja og innviða hjá Isavia, sagði frá þessu í viðtali þar sem hún fjallaði um nýtt farangurskerfi og aðrar úrbætur í tengslum við stórframkvæmdir á flugvellinum:

Við hlið langtíma bílastæðisins – MYND: ÓJ

„Við erum að breyta bílastæðabúnaði okkar. Komið verður upp númeralesurum og ökumenn geta notað hin ýmsu smáforrit til að greiða fyrir lagningu. Með þessu erum við að auka möguleika farþegans á að velja sér greiðsluleið en einnig að bæta upplifun hans af bílastæðum, ásamt því að bæta endingu bílastæðabúnaðarins. Við áætlum að taka nýja búnaðinn í notkun fyrir sumarið og erum spennt að sjá það raungerast.”

MYND: Isavia

Nú er nýja kerfið loks komið í gagnið og hljóta margir ökumenn að fagna því að þurfa ekki að brasa með kort eða miða í myrkri og misjöfnum veðrum þegar ekið er inn á og út af stæðinu.

Nýja kerfið virkar þannig, samkvæmt upplýsingum frá Isavia:
– Hliðin opnast núna sjálfkrafa þegar ekið er inn og út af þeim.
– Myndavélar lesa bílnúmer og sjá um að auðkenna bifreiðar.
– Ekki þarf lengur miða, QR kóða eða greiðslukort til að opna hliðin.
– Fjölbreyttari greiðslumöguleikar til að auka þægindi gesta.

MYND: Isavia

Með þessu er ætlunin að bæta þjónustu við akandi farþega á leið úr landi frá Keflavíkurflugvelli. Þeir verða svo sjálfir að muna þegar þeir koma heim hvar bílnum var lagt á víðáttumiklu bílastæðinu.