Nýtt kaffihús á Keflavíkurflugvelli

Fyrra af tveimur fyrirhuguðum kaffihúsum Bakað á Keflavíkurflugvelli hefur verið opnað á innritunarsvæðinu á 1. hæðinni. Seinna kaffihús fyrirtækisins verður opnað í verslunar- og veitingarými flugvallarins síðar á árinu.

MYND: Isavia

„Við ætlum að leggja áherslu á góða en einfalda rétti, ferskt brauðmeti og pizzur og hlökkum til að fá að baka ofan í gesti flugvallarins og senda þá sadda og sæla í háloftin,” segir Ágúst Einþórsson, bakari, í tilkynningu frá Isavia. HAF Studio hannaði Bakað-staðina.

MYND: Isavia

„Það var skemmtileg áskorun að skapa notalegt umhverfi og upplifun fyrir gesti Keflavíkurflugvallar. Við völdum náttúrulega eik í bland við fallegt leður í sætisrýminu, dempaða lýsingu og einfalt og stílhreint útlit. Við vildum skapa umhverfi þar sem gestum líður vel og vilja sitja og njóta fyrir flug,“ segir Hafsteinn Júlíusson, eigandi HAF Studio, í tilkynningunni.