Öflug rafhleðslustöð Brimborgar brátt opnuð við Keflavíkurflugvöll

Hægt verður að hlaða átta ökutæki af öllum stærðum í einu á nýrri rafhleðslustöð Brimborgar við Keflavíkurflugvöll sem opnuð verður síðar í sumar.

Væntanleg rafhleðslustöð Brimborgar í Reykjanesbæ MYND: Brimborg

„Brimborg er að stíga skref á hleðslumarkaðnum til að flýta innviðauppbyggingu og opnar öflugustu hleðslustöð landsins í Reykjanesbæ í næsta mánuði, sem mun þjóna íbúum, ferðamönnum og flutningabílum,“ segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, í helgarviðtali við Túrista.

Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar – MYND: ÓJ

Framkvæmdir standa nú yfir við hleðslustöðina á Flugvöllum í Reykjanesbæ, sem er nærri flugstöðinni.

Rafmagnsvinnuvél sér um jarðvinnu og aðföng eru flutt á rafmagnssendibíl. 

MYND: Brimborg

Stöðin er af gerðinni Kempower, með hleðsluafköst allt að 600 kW og verður hægt að hlaða átta ökutæki af öllum stærðum og gerðum í einu. Brimborg hefur samið við HS veitur um orku og hefur heimtaug þegar verið virkjuð. Allir með hleðsluappið e1 geta notað stöðina. 

Þetta er fjöltengjastöð með átta öflugum tengjum og verður hægt að fá góða hleðslu fyrir fólksbíla og vörubíla á stuttum tíma. 

Í helgarviðtalinu við Túrista gagnrýndi Egill Jóhannsson skort á framsýni og stefnufestu í málum sem varða rafbílavæðingu landsins og nýtingu íslenskrar orku til samgangna:

„Við höfum verið of róleg. Það er ekki nóg að setja sér metnaðarfull markmið í orkuskiptum og fara svo bara heim og hugsa: Þetta reddast. Aðgerðir þurfa að vera jafn metnaðarfullar. Það hefði einhver þurft að vera nógu framsýnn og segja: Rafbílar munu koma. Við ætlum að byggja innviðina hraðar en hingað til – þó þeir verði ekki fullnýttir til að byrja með. – En til að hafa slíka framsýni þarf að skilja bílamarkaðinn. Það vantar skilning í stjórnkerfinu á bílamarkaðnum. Allar þessar upplýsingar eru aðgengilegar á netinu. Menn þurfa bara að gúgla aðeins, lesa sér til, heyra í fólki í bílgreininni, fylgjast með.“

Nýja stöðin mun ekki síst þjóna þeim sem aka til og frá Keflavíkurflugvelli á bílaleigubílum en Brimborg starfrækir þrjár bílaleigur: Thrifty, Dollar og Saga.

MYND: Brimborg