Þegar Kauphöllin opnaði í morgun var markaðsvirði Play 10,3 milljarðar króna en viðskipti með hlutabréf félagsins voru óvenju mikil í dag. Veltan nam samtals 113 milljónum króna og hækkaði geng hlutabréfanna um 8,3 prósent í þessum viðskiptum. Þar með er virði Play komið upp í 11,2 milljarða króna.
Svo hátt var það síðast í lok apríl sl. en lækkaði verulega í maí og fór þá lægst niður í 8,1 milljarð kr. en þá kostaði hver hlutur aðeins 9,4 krónur. Til samanburðar voru hlutabréf í Play seld á allt að 20 krónur á hlut í útboði í sumarbyrjun 2021.
Stærstu hluthafar Play keyptu svo nýtt hlutafé í félaginu í nóvember sl. og borguðu þá 14,6 krónur fyrir hvern hlut en sem fyrr segir er gengið í dag 13 krónur.
Listi yfir stærstu hluthafa Play var síðasta uppfærður í lok maí og þá voru sjóðastýringafyrirtækin Stefnir og Íslandssjóðir með um tíu prósent hlut hvort um sig. Stærsti einstaki hluthafinn er hins vegar Leika fjárfestingar en meðal aðstandenda þess félags er Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play.
Flugfloti Play telur nú 10 þotur og ætlunin er að bæta við tveimur þotum til viðbótar fyrir næsta sumar.