Reikna með að Íslendingar ætli að fjölmenna til Alpanna

Bæði Icelandair og Play stefna á að fljúga fleiri Íslendingum en áður í átt að Ölpunum. Til viðbótar býður Úrval-Útsýn upp á eigin flugferðir til ítalska hluta fjallgarðsins.

Þeir sem ætla í Alpana í vetur geta valið úr fleiri ferðum en áður. Mynd: Kipras Streimikis / Unsplash

Þotur Icelandair munu fljúga til Innsbruck í Austurríki yfir skíðavertíðina næsta vetur en borgin var síðast hluti af vetraráætlun flugfélagsins á níunda áratug síðustu aldar. Fyrsta brottför er á dagskrá 27. janúar og næstu fimm laugardaga á eftir gefst færi á beinu flugi til höfuðstaðs Tíról héraðs.

„Borgin er umkringd einum bestu skíðasvæðum heims og er því mjög eftirsóttur áfangastaður fyrir skíðafólk. Vegna staðsetningarinnar er Innsbruck flugvöllur sérlega umsetinn yfir vetrartímann og því erum við afar stolt af því að geta bætt borginni við fjölbreytt úrval skíðaáfangastaða næsta vetur,“ segir Tómas Ingason, framkvæmdastjóri leiðakerfis og sölu hjá Icelandair, í tilkynningu.

Til viðbótar við ferðirnar til Innsbruck þá mun Icelandair halda áfram að fljúga vikulega til Salzburg í Austurríki yfir háveturinn og eins ætlar félagið í fyrsta sinn að bjóða upp á áætlunarflug til Verona á Ítalíu. Félagið hefur reyndar um langt árabil flogið viðskiptavinum ferðaskrifstofa til þeirra borgar en núna verður flugið til Verona alfarið á vegum Icelandair.

Félagið er þó ekki eitt um að bjóða Íslendingum upp á beint flug til Verona því Úrval-Útsýn heldur sínum ferðum til borgarinnar áfram og eins Play ætlar líka að spreyta sig í fyrsta sinn á flugi þangað.

Play mun svo þriðja veturinn í röð eiga í samkeppni við Icelandair um farþega á leið til skíðasvæðanna í nágrenni við Salzburg. Ennþá situr Icelandair situr þó eitt að vetrarflugi héðan til Munchen í Þýskalandi en þaðan er auðvelt að komast upp í skíðabrekkur.