Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Akureyrarhafnar má ætla að hátt í 4.000 farþegar komi á land af skemmtiferðaskipum í dag. Skipin sem koma eru Norwegian Star, Amadea, Viking Jupiter og könnunarskipið National Geographic Explorer. Þegar svo mörg skip koma til hafnar sama daginn gæti reynt á gestrisni einhverra. Fimmta skipið kemur til Grímseyjar.


Glæsiskipið Norwegian Prima á Oddeyrartanga – MYNDIR: ÓJ
Gærdagurinn, 24. júlí, var í rólegri kantinum nyrðra, aðeins eitt skemmtiferðaskip lagðist að bryggjunni á Oddeyrartanga, en það var af stærri gerðinni: Norwegian Prima, 294 metra langt og 44 metra breitt, með um 3.200 farþega og 1.500 manna áhöfn. Norwegian Prima er nýlegt skip, hóf siglingar á síðasta ári. Það er í eigu Norwegian Cruise Line Holdings og skráð í Nassau á Bahamaeyjum.


Farþegar fara í land – MYNDIR: ÓJ
Þetta er annasamt skipasumar á Akureyri. Búist er 212 heimsóknum 84 skipa með yfir 270 þúsund farþega og 120 þúsund manns í áhöfnum. Þessari miklu umferð fylgir augljóslega mikil loftmengun og álag á miðbænum – en um leið töluverð viðskipti við ferðaþjónustufyrirtæki, verslanir og veitingahús. Stór hluti farþega fer þó í skoðunarferðir úr bænum, austur í Mývatnssveit og annað, og kemur til baka að kvöldi.



Úr miðbæ Akureyrar – MYNDIR: ÓJ
Unnið er að því að gera nýjan viðlegukant við Torfunef. Aðstaða fyrir ferðaþjónustubáta og aðra batnar til una og minnstu skemmtiferðaskipin geta hugsanlega lagst þar að bryggju í framtíðinni.
Óhætt er að segja að skemmtiferðaskipin séu að breyta bæjarbrag og ásýnd Akureyrar.



Unnið er að gerð nýs hafnarsvæðis við Torfunef – og endurbótum á kirkjutröppunum – MYNDIR: ÓJ