Samningur í höfn við Airbus

Icelandair kaupir allt að 25 Airbus A321XLR flugvélar og gerir leigir fjórar A321LR þotur

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair og Christian Scherer, framkvæmdastjóri hjá Airbus við undirritun samningsins. MYND: ICELANDAIR

Icelandair og evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hafa undirritað samning um kaup á þrettán A321XLR flugvélum og kauprétt á tólf til viðbótar. Samningurinn kemur í kjölfar viljayfirlýsingar sem gerð var um viðskiptin fyrir þremur mánuðum síðan. Gert er ráð fyrir að Airbus afhendi fyrstu eintökin árið 2029.

Auk þess hefur Icelandair náð samningum við einn af núverandi leigusölum félagsins um langtímaleigu á fjórum nýjum Airbus þotum af tegundinni A321LR. Þær drífa allt að 7400 kílómetra eða um 1000 kílómetrum lengra en Boeing 757 þoturnar sem hafa verið uppistaðan í flota Icelandair á þessari öld. XLR þoturnar komast ennþá lengra eða allt að 8700 kílómetra.

Þessar fjórar leiguvélar verða afhentar á fjórða ársfjórðungi 2024 en fyrst teknar í notkun fyrir sumarvertíðina 2025.

Skýringamynd: Airbus
Skýringamynd frá Airbus á drægni XLR þotunnar.

„Það er mjög ánægjulegt að hafa nú gengið frá samningi við Airbus. Airbus A321XLR flugvélarnar munu skapa spennandi tækifæri til framtíðar, eru hagkvæmar í rekstri auk þess að styðja við sjálfbærnivegferð okkar. Áætlað er að við fáum fyrstu flugvélarnar samkvæmt samningnum afhentar árið 2029. Við munum hins vegar hefja rekstur á Airbus flugvélum fyrir sumarið 2025 og höfum nú samið um leigu á fjórum glænýjum Airbus A321LR þotum frá SMBC Aviation Captial,sem hefur verið einn af okkar samstarfsaðilum til lengri tíma,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Þetta er fyrsti samningurinn sem Icelandair gerir við Airbus en félagið hefur haldið tryggð við Boeing síðustu áratugi.

„Við erum ánægð og þakklát Icelandair fyrir traust sitt á Airbus og tökum stolt á móti flugfélaginu sem nýjum viðskiptavini. Við höfum fulla trú á því að framúrskarandi eiginleikar A321XLR muni styðja við sjálfbæran vöxt Icelandair og hjálpa félaginu að ná markmiðum sínum um minni útblástur,“ segir Christian Scherer, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Airbus, í tilkynningu.