Selja færri rafbíla eftir að ívilnanir voru felldar niður

MYND: JUICE WORLD/UNSPLASH

Eitt fyrsta verk hægri stjórnarinnar sem tók við í Svíþjóð sl. vetur var að fella niður ívilnanir til þeirra sem kaupa rafbíla. Aðdragandinn var stuttur því tilkynnt var um breytinguna að morgni 7. nóvember í fyrra og gekk hún í gildi daginn eftir.

Þessi breyting og hækkandi vextir eru helsta ástæða þess að sala á rafbílum hefur dregist saman í Svíþjóð og nú reiknar bílgreinasambandið þar í landi með tíu prósent samdrætti í ár.

Gangi þetta eftir þá er viðbúið að hlutfall rafbíla meðal nýskráðra bíla í Svíþjóð lækki úr 40 prósentum og niður í 35 prósent samkvæmt frétt Sænska dagblaðsins.

Hér á landi hefur vægi rafbíla af heildarfjölda seldra bíla verið um þriðjungur eins og Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, fór yfir í viðtali við Túrista fyrr í sumar.

Þar kallaði hann meðal annars eftir langtímastefnu stjórnvalda hvað varðar rafvæðingu bílaflotans og fyrirsjáanleika í opinberum gjöldum á þessa tegund ökutækja.

„Sérstaklega þykir mér slæmt að nú þegar eru að koma á markað rafbílar sem höfðað gætu til fólks sem er ekki með mestu fjárráðin þá á að skattleggja rafbílana! Loksins þegar allur almenningur ætti að geta eignast rafbíl þá koma nýir skattar í veg fyrir það. Þetta eru röng skilaboð,“ benti Jón Trausti á.

TENGT: Rafbílar á heimspólitísku taflborði„Þetta gengur alls ekki nógu hratt“