Um áramótin jókst álagning á tollfrjálst áfengi og þá töldu stjórnendur Icelandair það „fyrirsjáanlegt“ að áfengissala myndi dragast saman í Fríhöfninni með þeim afleiðingum að Isavia yrði að auka gjaldtöku á flugfélögin.
Þessar verðhækkanir í byrjun árs hafa hins vegar ekki haft teljandi áhrif á áfengissölu Fríhafnarinnar eins og Túristi greindi nýverið frá. Þar kom líka fram að þeir sem kaupa léttvín við komuna til landsins spara sér minna en áður því verðmunurinn á Fríhöfninni og Vínbúðum ÁTVR hefur dregist saman.
Léttvínið er engu að síður áberandi í komuverslun Leifsstöðvar en þar er vinsælasta flaskan sem fyrr Baron de Ley Reserva, frá Rioja á Spáni. Þessi rauðvínsflaska seldist best í Fríhöfninni samkvæmt lista sem Túristi birti um páskana og staðan er óbreytt í dag þegar árið er hálfnað.
Það hafa aftur á móti orðið breytingar í næstefsta sætinu því um páskana sat þar Muga Reserva sem einnig er úr Rioja héraði. Sú var jafnframt dýrasta flaskan á topp 10 og kostaði 3.549 krónur. Í dag er verðið það saman en flaskan er víðsfjarri topplistanum. Í annað sætið er sest helmingi ódýrari ítölsk freyðivínsflaska.
Í því þriðja er svo rautt vín frá Ítalíu sem ekki var á topplista Fríhafnarinnar um páskana. Tveir aðrir nýliðar eru á listanum eins og sjá má hér fyrir neðan.