„Þetta má ekki koma fyrir aftur“

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segist taka afsökunarbeiðni útgerðafélags skemmtiferðaskipsins Zuiderdam. MYNDIR: JÓNAS GODSK OG AKUREYRARBÆR

„Við erum ekki ánægð með að svona komi upp því þetta er alls ekki í samræmi við stefnu sveitarfélagsins í umhverfismálum,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, spurð um reykjarmekkinn sem lagði í gær frá skemmtiferðaskipinu Zuiderdam og yfir Eyjafjörð.

Hún segir að útgerð skipsins hafi beðist afsökunar á atvikinu. „Við tökum því en þetta má ekki koma fyrir aftur,“ undirstrikar Ásthildur en samkvæmt upplýsingum frá útgerðafélagi Zuiderdam þá olli bilun í hitunarkerfi skipsins óvenju mikilli gufumyndun með fyrrnefndum afleiðingum.

Í sumar munu 40 prósent fleiri skemmtiferðaskip koma til Akureyrar en raunin var síðasta sumar. Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Akureyrar, sagði í viðtali við Túrista í byrjun viku að hann reikni með að næsta sumarvertíð verði álíka og sú sem nú stendur yfir.

Hvernig líst bæjarstjóranum á það?

„Á meðan við ráðum við fjöldann þá er þetta í lagi en við þurfum að huga að því hvenær það er orðið uppselt. Ég held að allir séu sammála um það að ekki sé endalaust hægt að bæta við.“

Ásthildur segir jafnframt að það þurfi að vera alveg á hreinu hvernig brugðist verði við ef ástand, eins og skapaðist í gær, kemur upp á ný. „Það verður að vera alveg skýrt gagnvart öllum aðilum hvaða leikreglur gilda í Akureyrarhöfn,“ segir bæjarstjórinn að lokum.


Sumartilboð á áskrift