Þurfa að draga úr drægni nýju þotunnar

Þeir sem fyrst tryggðu sér hina nýju Airbus A321XLR fá sínar vélar á fyrri hluta næsta árs. Icelandair gerir ráð fyrir sínum fyrstu eintökum árið 2029. MYND: AIRBUS

Það styttist í að Airbus afhendi fyrstu eintökin af hinum langdrægu A321 XLR farþegaþotum en þeim er einmitt ætlað stórt hlutverk hjá Icelandair á næsta áratug. Um er að ræða svokallaðar mjóþotur, með einum gangi, sem komast lengra en flugvélar af þessari stærð hafa hingað til komist með allt að 220 farþega.

Airbus hefur gefið út að þotan eigi að komast 8700 kílómetra eða um tvö þúsund kílómetrum lengra en gömlu Boeing 757 þoturnar sem voru lengi uppistaðan í flota Icelandair.

Þessi mikla drægni fæst með fleiri eldsneytistönkum og þar með einum nýjum bakvið vængina. Þegar fyllt er á þann tank rúmast í honum 13 tonn af eldsneyti sem duga til að auka drægnina um 15 prósent.

Skýringamynd: Airbus
Skýringamynd frá Airbus á eiginleikum XLR þotunnar.

Evrópska flugöryggisstofnunin gerði hins vegar athugasemdir við hönnun þessa tanks og þurfti Airbus að auka eldvarnir í kringum hann sem varð til þess að þotan þyngdist. Og nú herma heimildir Reuters að skrokkur XLR þotanna hafa þyngst töluvert meira en verkfræðingar Airbus gerðu ráð fyrir eða um 700 til 800 kíló.

Viðmælendur Reuters telja að þetta kosti 370 kílómetra í drægni og nú þegar séu sölumenn Airbus farnir að bjóða kaupendum XLR-þotanna að skipta á þeim og A330 breiðþotum þar sem ljóst sé að nýja mjóþotan muni ekki nýtast eins vel og reiknað var með á lengstu leiðunum.

Airbus gerir ráð fyrir að fyrstu kaupendur af XLR þotunni fái sínar fyrstu vélar á öðrum fjórðungi næsta árs.