Óhætt er að segja að ákvörðun hollensku ríkisstjórnarinnar um að takmarka flugtök og lendingar á Schiphol-flugvelli við Amsterdam við 440 þúsund á ári hafi farið öfugt ofan í stjórnendur evrópskra flugfélaga. Þeir leituðu því til hollenskra dómstóla en höfðu ekki erindi sem erfiði því samkvæmt nýjum dómi eru hollenskir ráðamenn í fullum rétti til að draga úr umsvifunum á Schiphol.
Þar með stefnir í að fækka þurfi lendingarleyfum á þessum fjölfarna flugvelli um meira en tíund strax næsta vor. Um leið verða allar flugferðir bannaðar fyrir klukkan sex á morgnana og eins kemur til greina að banna flug háværra farþegavéla og einkaþota. Gripið er til þessara ráðstafana vegna langvarandi og háværra mótmæla íbúa í grennd við völlinn eins og Túristi hefur áður farið yfir.
Schiphol er heimavöllur KLM og talið er viðbúið að það félag þurfi að endurskipuleggja leiðakerfi sitt og jafnvel nýta stærri þotur en áður. Hvort niðurskurðurinn hafi áhrif á Íslandsflug frá Amsterdam á eftir að koma í ljós en í dag fljúga bæði íslensku flugfélögin til borgarinnar og Transavia heldur úti áætlunarflugi þaðan til Keflavíkur.