Vekja athygli á kostum ferðaþjónustunnar

Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir tímasetninguna á sérstöku markaðsátaki, í samstarfi við stjórnvöld, að hluta til viðbragð við umræðunni um greinina og boðaða gjaldtöku.

Vefurinn gestgjafar.is opnaður. Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. MYND: SAF

„Þetta er af svipuðum meiði og ýmis sambærileg verkefni víða um heim sem gjarnan er talað um undir samheitinu Tourism Matters. Það snýr að því að vekja athygli á þeim jákvæðu áhrifum sem ferðaþjónusta hefur á lífskjör og lífsgæði fólks, á allskonar fyrirtæki og samfélagið í heild,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, um nýtt markaðsátak sem sem hleypt var af stokkunum fyrir helgi og ber heitið Góðir gestgjafar.

Þar eru landsmenn hvattir til að njóta þess vera gestgjafar og þeirra margvíslegu gæða sem því fylgja.

Á fyrri helmingi ársins voru ferðamennirnir sem flugu frá landinu litlu færri en metárið 2018 og til viðbótar eru skemmtiferðaskipin fleiri núna en nokkru sinni fyrr. Vöxturinn í ferðaþjónustu er því mikill og ríkisstjórnin hefur boðað aukna gjaldtöku um áramótin.

Umræðan um áhrif greinarinnar á þjóðarbúskapinn og samfélagið er líka töluverð. Þannig lýstu tveir fyrrverandi seðlabankastjórar ólíkri sýn sinni á umsvif ferðaþjónustunnar fyrr í sumar.

Spurður hvort markaðsátakið sé viðbragð við umræðunni um atvinnugreina og boðaða gjaldtöku þá segir Jóhannes Þór að það hafi þótt góður tími núna til að fara af stað með verkefnið enda ýmislegt til umræðu eins og nefnt er hér að ofan.

„Þetta er líka ágætur tímapunktur í samhengi við vinnu við aðgerðaáætlun um ferðaþjónustu til ársins 2030,“ bætir Jóhannes við en markmið þess verkefnis, sem er á vegum stjórnvalda, er að leggja línurnar í þróun atvinnugreinarinnar næsta áratug.

Segir Íslendinga vera góða gestgjafa

Auk Samtaka ferðaþjónustunnar þá kemur Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Ferðamálastofa, Íslenski ferðaklasinn og áfangastaðastofur landshlutanna að markaðsátakinu og haft er eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, að Íslendingar séu góðir gestgjafar og Ísland eftirsóknarvert heim að sækja. Það sýni meðal annars kannanir á upplifun erlendra ferðamanna. Lilja Dögg undirstrikar líka efnahagslegt mikilvægi greinarinnar.

„Ferðaþjónustan er máttarstólpi í þjóðarbúinu, stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegurinn og skilaði okkur um 390 milljörðum króna í útgjöldum erlendra ferðamanna á síðasta ári. Það gefur auga leið að fyrir lítið opið hagkerfi skiptir þetta miklu máli.“

Lífið á landsbyggðinni

Gangur ferðaþjónustunnar hér á landi kemur heldur ekki aðeins erlendum ferðamönnum til góða eins og Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, bendir á.

„Það er orðinn grundvöllur fyrir rekstri verslana allt árið í litlum samfélögum, hér er fjöldi baðlóna á heimsmælikvarða, alls konar þjónusta hefur orðið til sem áður stóð ekki undir sér, kaffihús og veitingastaðir starfa í næstum hverjum bæ á landinu og víða í sveitum, stærri markaður er fyrir vörur bænda og smáframleiðenda og betri grundvöllur fyrir að starfa við íslenska hönnun svo eitthvað sé nefnt. Svo má ekki gleyma því að við Íslendingar erum líka ferðamenn í eigin landi, og öll þessi uppbygging hefur gert þá upplifun fjölbreyttari og skemmtilegri fyrir okkur öll,“ segir Arnar Már og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF, tekur í sama streng.

„Það hefur verið frábært að sjá allt það ótrúlega líf sem hefur kviknað um allt land út frá ferðaþjónustunni síðustu ár, til dæmis miklu fjölbreyttari atvinnutækifæri, meiri grundvöllur fyrir rekstri lítilla fjölskyldufyrirtækja, fjöldi frábærra veitingastaða og alls konar þjónusta hefur orðið til sem við heimafólkið nýtum okkur líka. Við upplifum landið okkar líka á annan hátt þegar við sjáum hversu mögnuð áhrif það hefur á gestina, sem hafa kosið að verja dýrmætasta tíma sínum hér hjá okkur, frítímanum.“